Heilsuverndarstöð Reykjavíkur

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:30:58 (2508)

2003-12-03 19:30:58# 130. lþ. 41.15 fundur 240. mál: #A Heilsuverndarstöð Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:30]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hreyfa þessu máli. Hv. þm. Ásta Möller hefur beint til mín fyrirspurn um gang viðræðna við borgaryfirvöld í Reykjavík um kaup ríkisins á eignarhlut borgarinnar í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur.

Eins og kunnugt er hafa viðræður átt sér stað um eignarhluta ríkisins í Heilsuverndarstöðinni sem er tæplega 4.500 fermetra hús við Barónsstíg í Reykjavík og var byggt á árunum í kringum 1950. Eins og kom fram telst eignarhluti ríkisins vera 40% en Reykjavíkurborgar um 60%.

Ég vil taka það skýrt fram að það er fullur vilji fyrir því í heilbrrn. og hjá mér að nýta eignina áfram í þágu heilbrigðisþjónustu landsmanna enda hefur þessi glæsilega bygging mjög sterka ímynd heilbrigðisþjónustu, ekki einungis í borginni heldur um land allt. Eins og kom fram í svari mínu til hv. þingmanns á sl. ári hafa ýmsar athuganir verið gerðar á hugsanlegri nýtingu heilsuverndarstöðvarinnar en endanleg niðurstaða í því efni liggur ekki fyrir. Það er rétt sem kom fram í fyrirspurn hv. þm. að þarna er núna vistuð fjölmörg starfsemi sem tilheyrir heilbrigðisþjónustu.

Eins og fram hefur komið hefur Reykjavíkurborg óskað eftir að selja sinn hluta. Viðræður um málið hafa legið niðri frá því á vormánuðum. Það hefur verið uppstytta í þeim en ég hef einsett mér að taka upp þessar viðræður að nýju og freista þess að ná samkomulagi við Reykjavíkurborg um ráðstöfun þessarar eignar til framtíðar.