Heilbrigðisþjónusta við útlendinga

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:44:50 (2514)

2003-12-03 19:44:50# 130. lþ. 41.16 fundur 241. mál: #A heilbrigðisþjónusta við útlendinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:44]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svör hans þótt ég hefði kosið að þau væru heldur ákveðnari í þessa veru en kannski er það einhver ákafi í mér að reyna nýjar leiðir sem veldur því að mér finnst vera hægt farið. Aðstæður á Íslandi til að selja útlendingum heilbrigðisþjónustu eru til fyrirmyndar. Þess er skemmst að minnast að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um LSH kemur fram að í mörgum tilvikum reiðir sjúklingum betur af eftir aðgerð en sjúklingum í sams konar aðgerðum á sjúkrahúsum í Bretlandi. Þá er allur tækjabúnaður og aðstæður hér til fyrirmyndar svo að ekki sé minnst á að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn eru á heimsmælikvarða með eitt hæsta menntunarstig í heimi og mjög góða tungumálakunnáttu. Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra bar þessi mál á góma í umræðum á lýðheilsuþingi sem var haldið fyrir stuttu og þar lýsti m.a. Berglind Ásgeirsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá OECD, sem hefur mjög víðtæka sýn á þessi mál að hún teldi að á Íslandi væri tilvalið að selja útlendingum heilbrigðisþjónustu og að íslensk heilbrigðisþjónusta væri í sóknarfæri til útflutnings. Allar aðstæður hér á landi væru til fyrirmyndar sem gerðu slíkan kost eftirsóknarverðan.

Ég heyrði það á viðbrögðum hæstv. heilbrrh. eftir þingið að orð hans mátti skilja í þá veru að slíkt yrði eingöngu gert að frumkvæði lækna sjálfra. Ég er ekki alveg sammála því. Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál þurfi að taka föstum tökum og að stjórnvöld eigi að taka frumkvæði, setja sér stefnu og undirbúa á markvissan hátt útrás Íslendinga í sölu á heilbrigðisþjónustu til útlendinga. Þetta yrði hrein viðbót við íslenska heilbrigðisþjónustu, hún yrði gjaldeyrisskapandi og færði nýtt fjármagn inn í heilbrigðiskerfið sem veitir ekki af. Að auki gæti þessi ráðstöfun stytt biðlista Íslendinga eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu með auknu fé inn í kerfið og aukinni skilvirkni þannig að ég mundi vilja taka þau skref að vera ögn ákafari í þessu. Auðvitað þarf að undirbúa hlutina vel. Við megum ekki rasa um ráð fram en það verður að vera til stefna til þess að geta fylgt henni eftir.