Málaskrá lögreglu

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:49:35 (2516)

2003-12-03 19:49:35# 130. lþ. 41.17 fundur 230. mál: #A málaskrá lögreglu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:49]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég hef á þskj. 250 lagt fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um málaskrá lögreglu.

Það hefur verið unnið að nýrri málaskrá lögreglu um nokkurt skeið. Núverandi málaskrá er komin nokkuð til ára sinna, var líklega búin til á árunum 1996 og 1997 og er því ekki alveg í takt við það sem best gerist í þessum efnum.

Af þeim sökum var ákveðið að hefja frekar vinnu við nýja málaskrá í stað þess að lappa upp á þá gömlu með sífelldum endurbótum ár eftir ár eins og gert var. Ný málaskrá lögreglu verður miklu fullkomnari en sú sem nú er notuð sem mun leiða til árangursríkari og skilvirkari löggæslu. Nýja málaskráin verður væntanlega tengd dagbók lögreglu en það er m.a. það sem vantar upp á þá málaskrá sem nú er notuð.

Í nýrri málaskrá verða sömuleiðis betri og nákvæmari tölulegar upplýsingar sem auðvelda mun alla tölfræði sem er nauðsynlegt þegar verið er að setja markmið um löggæslu og í löggæslumálum.

Hér er um tæknilega mjög flókið verkefni að ræða sem krefst mikillar hugbúnaðargerðar auk þess sem huga þarf að vélbúnaði. Þetta tekur auðvitað töluverðan tíma. Vinna við gerð þessarar málaskrár hefur staðið yfir um nokkurt skeið og mikilvægt að þessu verkefni ljúki eins fljótt og unnt er.

Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmrh.: Hvað líður gerð nýrrar málaskrár lögreglu?