Málaskrá lögreglu

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:51:45 (2517)

2003-12-03 19:51:45# 130. lþ. 41.17 fundur 230. mál: #A málaskrá lögreglu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:51]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er hvað líði gerð nýrrar málaskrár lögreglu. Smíði hins nýja lögreglukerfis miðar vel. Að loknu forvali og útboði var gengið til samninga við Skýrr hf. um smíði kerfanna. Frumvinnu og hönnun kerfisins er lokið og forritunarvinna er komin vel af stað. Áætlað er að taka kerfið í notkun 1. október á næsta ári að undangenginni kennslu og kerfisprófunum.

Um er að ræða nýtt heildstætt lögreglukerfi sem mun leysa af hólmi fimm kerfi sem lögreglan notar í dag fyrir dagbókarskráningar, skýrslugerð, málaskrá, handtökur og brotamannaskrá. Meginmarkmið hins nýja lögreglukerfis er m.a. aukin samhæfing, þar sem lögreglukerfið mun vinna á einu gagnsafni sem þýðir að sömu gögn verða aðeins geymd á einum stað og að gögn sem búið er að skrá einu sinni í kerfið þarf ekki að skrá aftur eins og þörf er á við núverandi aðstæður. Mun kerfið auka skilvirkni lögreglunnar og flýta allri tölvuvinnslu. Þá verður enn fremur mögulegt að vinna með skilvirkari hætti ýmsa tölfræði, bæði til upplýsingar fyrir almenning og til að nýta við stjórn löggæslu sem og við forvarnir. Má því segja að hið nýja kerfi sé einnig stjórnunartæki sem mun veita lögreglunni aukna möguleika á að nýta betur mannafla og tæki og ná þannig því markmiði sem ávallt er stefnt að, þ.e. að ná fram betri löggæslu og þar með betri þjónustu við almenning.

Markmið með smíði nýrra lögreglukerfa er að auka skilvirkni og öryggi í upplýsingamiðlun lögreglunnar, svara aukinni upplýsingaþörf vegna fjölbreyttari verkefna, auka afköst lögreglumanna og auka samræmingu á milli lögregluembætta. Eru þá einungis fáir kostir hins nýja kerfis nefndir.

Ég vil að lokum leggja á það áherslu að allir almennir öryggisstaðlar um virkni og rekstur tölvukerfa verða uppfylltir, bæði hvað varðar innra og ytra öryggi, og þess verður sérstaklega gætt að kröfur persónuverndar um gagnaöryggi séu uppfylltar, svo og lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.