Skipan löggæslumála

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:58:35 (2520)

2003-12-03 19:58:35# 130. lþ. 41.18 fundur 362. mál: #A skipan löggæslumála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:58]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég kýs að svara þessum spurningum með því að lesa úr erindisbréfinu sem ég setti þessum starfshópi, en leyfi mér einnig að vísa til ræðu sem ég flutti á fundi sýslumanna á Selfossi 17. október sl. þar sem ég lagði upp starf þeirrar nefndar eða þess starfshóps sem nú hefur hafið störf. Það má lesa ræðuna á heimasíðu dómsmrn.

Samkvæmt skipunarbréfinu hefur verkefnisstjórnin tvíþætt meginhlutverk:

Í fyrsta lagi að koma með hugmyndir að nýju skipulagi með það að markmiði að styrkja og efla starfsemi lögreglu og sýslumanna auk þess að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem til embættanna er varið.

Í öðru lagi að móta löggæsluáætlun til næstu ára, þar sem kynnt er forgangsröð við úrlausn verkefna og sett eru mælanleg markmið fyrir löggæsluna.

Þegar litið er til innra starfs löggæslunnar er nauðsynlegt að meta reynsluna af lögreglulögunum, skipulagi á verkaskiptingu sem þá kom til sögunnar.

Á árinu 1999 var sett af stað vinna við gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta og var skipuð til þess nefnd þar sem sýslumannafélagið kom að verki ásamt fulltrúum dóms- og fjmrn. Unnið hefur verið að þessu verki með hléum en gerð reiknilíkans sem mælir á raunsæjan hátt rekstrarkostnað embætta reyndist vera mun flóknari en talið var í upphafi og hefur það fyrst og fremst tafið störf nefndarinnar.

[20:00]

Frekari vinna á þessu sviði hlýtur að taka mið af þeim markmiðum sem nú eru að mótast um skipan löggæslu og innra starf lögreglunnar. Vel ígrundað og sanngjarnt reiknilíkan fyrir alla meginþætti í starfi sýslumanna og lögreglu er liður í því að fyrirhugaðar breytingar verði árangursríkar auk þess sem líkan getur verið ómetanlegt hjálpartæki við framkvæmd breytinganna.

Markmiðið er að löggæsla og ákæruvald eigi í fullu tré við þá sem gerast brotlegir við lögin og standi þeim helst feti framar. Efnahagsbrot eru fleiri og stærri en áður og rafrænum aðferðum er beitt af vaxandi þunga við brotastarfsemi. Þörf fyrir sérmenntað fólk til rannsókna verður sífellt meiri. Menntun, búnaður og tækjabúnaður lögreglu verður að vera í samræmi við markmið og kröfur á hverjum tíma, þjálfun sveita lögreglumanna á að taka mið af verkefnum og áhættu sem þeir verða oft að taka í mikilvægum störfum sínum.

Við endurskoðun á skipan lögreglumála er nauðsynlegt að taka afstöðu til ýmissa sjónarmiða, t.d. varðandi ákæruvaldið, sem fram hafa komið á undanförnum árum um það sem betur má fara að dómi sérfróðra og reynslumikilla manna.

Löggæsla byggist á tveimur meginstoðum, almennri löggæslu og rannsóknum. Á milli þessara stoða verða að vera greiðar leiðir þótt starfsaðferðir séu að ýmsu leyti ólíkar. Komið hafa fram hugmyndir um að rannsóknardeildir eða rannsóknarlögregla verði skilgreind í lögum og er nauðsynlegt að taka afstöðu til þeirra.

Þegar litið er til starfa sýslumanna skulu þessi tvö meginatriði höfð í huga. Í fyrsta lagi skiptir miklu fyrir byggðir landsins að ekki sé sett sem markmið að draga úr þeim styrk sem felst í starfrækslu sýslumannsembættanna og þjónustunni á þeirra vegum.

Í öðru lagi þarf inntak í embættisfærslu sýslumanna ekki endilega alls staðar að vera hið sama. Í fjárlagafrv. fyrir árið 2004 er gert ráð fyrir 5 millj. kr. fjárveitingu til dómsmrn. sem ætlunin er að nýta eftir því sem þörf er á til að vinna að þessu verkefni. Í samráði við dómsmrh. er verkefnisstjórn heimilað að ráða sérfræðinga og stofna faglega hópa til að vinna að úrlausn einstakra viðfangsefna. Verkefnisstjórn er falið að hafa náið og opið samráð við forustu lögreglumanna og sýslumanna.

Það er ekki markmiðið með þessu starfi að fækka sýslumannsembættum. Það hefur ekki verið sett sem markmið. Það er heldur ekki markmið í þessu starfi að færa löggæsluna frá ríkinu til sveitarfélaga.