Skipan löggæslumála

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:03:04 (2521)

2003-12-03 20:03:04# 130. lþ. 41.18 fundur 362. mál: #A skipan löggæslumála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:03]

Jóhann Ársælsson:

Ég fagna því að menn ætli að snúa sér að því að endurskoða skipan löggæslumála. Menn hafa ekki haft kjark til að taka á því máli fram að þessu.

Ég verð hins vegar að lýsa yfir vonbrigðum yfir því að mér virðist sem hæstv. dómsmrh. hafi eiginlega ekki svo mikinn kjark til að taka á málinu. Það virðist eiga að styrkja alla þá sem eiga þarna hlut að máli en eigi að koma skipan löggæslumála í betra horf þá hlýtur að þurfa að taka verkefni frá sýslumönnum. Þá þurfa menn að þora að segja upphátt að það þurfi að gera, enda er náttúrlega tímabært að menn stækki svæði þannig að hægt sé að stýra lögreglunni og þeim mannskap sem er til staðar til að sinna löggæslu betur en gert hefur verið.