Rýmingar- og björgunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:09:01 (2524)

2003-12-03 20:09:01# 130. lþ. 41.19 fundur 369. mál: #A rýmingar- og björgunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:09]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Í landi eins og okkar, þar sem náttúrukraftar geta brotist fram skyndilega og jafnvel ógnað lífi fólks, er öflugt forvarnar- og björgunarkerfi mikilvægt. Það er jafnframt mikilvægt í ljósi þess að í breyttum heimi eru aðrar ógnir en áður, t.d. hryðjuverk, eiturefnahernaður og eiturefnaslys.

Með lagabreytingu í fyrra voru viðbragðsaðilar sameinaðir í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Tilgangurinn var aukið öryggi og efling almannavarna, stytting á boðleiðum og einföldun á stjórnskipulagi svo og sparnaður í opinberum rekstri, svo vitnað sé í greinargerð með frv. um þessar breytingar.

Til þess að vera sem best undir björgunaraðgerðir búinn eru gerðar björgunaráætlanir fyrir ýmis svæði sem talin eru geta verið hættusvæði í ákveðnum tilvikum og við ákveðnar aðstæður. Samgöngunefndarmenn Alþingis heimsóttu Skógarhlíðina í síðustu viku og ræddu málefni björgunarstöðvarinnar við starfsmenn þar og svöruðu þeir fyrirspurnum þingmanna. Þar kom fram að til eru rýmingar- og björgunaráætlanir fyrir ýmis bæjarfélög, t.d. Hveragerði, en slík áætlun er ekki til um Reykjavík eða höfuðborgarsvæðið. Ef hún er til er hún mjög gömul og illa kynnt þannig að björgunarstöðvarmönnum var ekki kunnugt um hana.

Þetta tel ég mjög alvarlegar upplýsingar. Við þurfum ekki annað en að sjá hvernig hraun hefur runnið á höfuðborgarsvæðinu, horfa til Bláfjallasvæðisins, Kleifarvatns, Krýsuvíkur og annarra svæða í nágrenninu sem eru virk eldfjallasvæði. Heimaeyjargosið er talandi dæmi um það sem getur gerst. Vegakerfið hér út úr borginni er löngu sprungið á álagstímum og er þjóðvegahátíðin á Þingvöllum mönnum enn í fersku minni þar sem bílar komust hvorki lönd né strönd.

Stórslys geta alltaf hent og bæði þau og náttúruhamfarir gera ekki boð á undan sér, að ég tali ekki um hryðjuverk þó að við séum kannski ekki í mestri hættu hvað þau varðar. Á þessu svæði býr um helmingur þjóðarinnar og það er ekki til rýmingaráætlun, áætlun um hvernig skuli koma fólki í burtu ef alvarlegt ástand skapast og líf íbúa á svæðinu er í hættu. Hvernig ætla menn að fara að? Hvernig ætla menn að rýma höfuðborgina og nágrannasveitarfélögin ef lífi íbúanna er ógnað?

Auðvitað vonar maður að slíkt gerist ekki en menn verða að vera við öllu búnir. Því spyr ég hæstv. dómsmrh.: Er til rýmingar- eða björgunaráætlun fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélög ef náttúruhamfarir eða stórslys verða sem ógna lífi íbúa á þessu svæði?