Rýmingar- og björgunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:16:42 (2527)

2003-12-03 20:16:42# 130. lþ. 41.19 fundur 369. mál: #A rýmingar- og björgunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:16]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er mín skoðun að það þurfi að vera mögulegt að flytja fólk af svæðinu hérna og ég held að það séu margir á þeirri skoðun. Auðvitað er mönnum ofarlega í huga hvernig var í Vestmannaeyjum og engum dettur í hug að halda því fram að það hefði átt að láta Vestmanneyinga vera áfram á því svæði heima hjá sér undir þeim aðstæðum sem þar voru og enginn vissi hvernig mundu breytast. Það gætu hugsanlega komið upp svipaðar aðstæður hér, að af einhverjum ástæðum yrði óbyggilegt á stórum svæðum um tíma eða jafnvel lengi og þá þurfa auðvitað að vera til úrræði til þess að hlutirnir gangi eðlilega og vel fyrir sig.

Við vitum að vegakerfið hérna annar ekki einu sinni föstudagsumferðinni hvað þá flótta úr borginni þannig að það hlýtur að þurfa að hugsa til þess að flytja fólk með öðrum hætti héðan ef á þyrfti að halda vegna vár af þessu tagi. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að fylgja því fast eftir að slík áætlun verði til.