Rýmingar- og björgunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:19:48 (2529)

2003-12-03 20:19:48# 130. lþ. 41.19 fundur 369. mál: #A rýmingar- og björgunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:19]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja þingmenn til þess að huga að því hvað þeir eru að segja, hvað þeir eru að leggja til og hvaða hugmyndir þeir eiginlega hafa um þá hættu sem að okkur kann að steðja. Ég held að á vegum Almannavarna Reykjavíkurborgar og sérstaklega á vegum slökkviliðsins sé ákaflega vel að þessum þáttum staðið og skipulega. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að auka samstarf á milli almannavarnanefnda á höfuðborgarsvæðinu. Menn verða náttúrlega að leggja mat á það líka hver hættan er, hver áhættan er og hvaða líkur séu á því að það ástand skapist að við þurfum að rýma höfuðborgina. Mér finnst menn koma hér og tala bara eins og það sé eitthvað sem við stöndum frammi fyrir og verðum að velta fyrir okkur og kunni að gerast.

Það er ekki þannig, held ég, að neinn sérfræðingur sem að þessum málum kemur standi frammi fyrir þeirri spurningu og velti því fyrir sér hvað þurfi að gera til að rýma allt höfuðborgarsvæðið. Ég held að enginn sérfræðingur leggi til að þannig sé staðið að málum að áætlanir séu gerðar með það fyrir augum að höfuðborgarsvæðið verði rýmt. Ég veit ekki um hvað menn eru að tala hér. Þingmenn verða að (Gripið fram í.) gæta ábyrgðar í orðum sínum þannig að þeir séu ekki að draga upp ímyndaðar myndir eins í einhverjum vísindaskáldsögum. Við lifum ekki í vísindaskáldsögum. Við lifum í öðrum veruleika sem betur fer. Að sjálfsögðu þurfa þessar áætlanir að vera fyrir hendi. En þegar fólk veltir þessu fyrir sér af alvöru, eins og ég sagði, og án þess að gera yfirvöldin tortryggileg í þessu efni þá er hugmyndafræðin á bak við þetta allt saman sú að best er að búa þannig um hnútana að fólk geti dvalist á heimilum sínum og í nágrenni við þau eins eins lengi og frekast er kostur.

Og að gera ráð fyrir því að hér þurfi að vera áætlanir. Ég veit ekki til þess að nokkurs staðar í heiminum séu til áætlanir um að flytja jafnstóran hluta þjóðar á brott eins og þið, hv. þm., eruð að tala um að þurfi að gera á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit ekki til þess að nokkur þjóð hafi skipulagt öryggismál sín þannig. Ég held að þingmenn verði að átta sig á því um hvað þeir eru að tala.