Fjarskiptamiðstöð lögreglu

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:28:12 (2533)

2003-12-03 20:28:12# 130. lþ. 41.20 fundur 371. mál: #A fjarskiptamiðstöð lögreglu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:28]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör en vegna upphafsræðu hans verð ég að segja það að mér finnst hafa verið veist mjög ómaklega að okkur sem komum inn í umræðuna um fyrri fyrirspurn mína, um björgunaráætlunina og rýmingaráætlunina á höfuðborgarsvæðinu. Svona hlutir geta gerst. Við sáum það í gosinu í Vestmannaeyjum. Við vitum að við búum á eldvirku svæði og við þurfum að vera við öllum búin. Við erum ekki að segja að það gerist endilega eitthvað, og vonum auðvitað að það gerist ekki neitt, en auðvitað verða menn að vera með slíkar áætlanir tilbúnar og það hefði kannski betur verið svo að það hefði verið til áætlun í Vestmannaeyjum. Menn voru svo heppnir að flotinn var inni þegar þetta gerðist þannig að þetta er mjög raunhæf umræða og nauðsynleg.

En varðandi svör hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni um fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og hvers vegna hún tilheyrir ekki öllu landinu þá kemur það fram að hún getur ekki sinnt öllu landinu vegna þess að hún er með þannig tækjabúnað að hann getur ekki haft samskipti við önnur svæði á landinu og það er einmitt það sem ég mun koma að í næstu fyrirspurn minni, þar sem ég tel að sé pottur brotinn í okkar björgunarkerfi að það skuli ekki vera samræmt kerfi á öllu landinu. Fyrst ákveðið var að koma upp TETRA-kerfinu, sem er frábært kerfi, þá þyrfti það auðvitað að vera alls staðar þannig að menn gætu nýtt þessa frábæru björgunarstöð sem er í Skógarhlíðinni og vissulega mundi það líka hafa einhvern sparnað í för með sér. Þótt það sé dýrt hefur það líka örugglega sparnað í för með sér. Og ég spyr hæstv. ráðherra hvort það geti ekki verið. En ég mun ræða þetta ástand um þetta kerfi í næstu fyrirspurn minni sem er á dagskrá hér á eftir.