Samræmt fjarskiptakerfi

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:33:58 (2537)

2003-12-03 20:33:58# 130. lþ. 41.21 fundur 368. mál: #A samræmt fjarskiptakerfi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:33]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Í svari hæstv. ráðherra áðan við fyrri fyrirspurn minni kom fram að ástæðan fyrir því að fjarskiptamiðstöð lögreglunnar í Skógarhlíðinni, í björgunarmiðstöðinni, getur ekki sinnt öllu landinu sé sú að ekki er samræmt fjarskiptakerfi. Björgunaraðilarnir í Skógarhlíðinni, lögreglan og allir þeir sem þar starfa eru með TETRA-kerfi en aðrir viðbragðsaðilar fyrir utan svæðið eru ekki með sams konar kerfi. Eins og kom fram hjá mér áðan er björgunarmiðstöðin að sinna 80% tilkynninga til Neyðarlínunnar en getur ekki sinnt öllu landinu vegna þess að kerfin sem notuð eru á landinu geta ekki talað saman. Ekki er hægt að tala saman með þeim kerfum.

Eins og kemur fram í frv. um breytingar sem urðu á björgunarmálum í fyrra er eitt meginmarkmiðið með sameiningunni í Skógarhlíðinni að auka öryggi og efla almannavarnir, samnýta hæfa starfsmenn og þannig væri hægt að virkja betur samskiptakerfi lögreglunnar vegna almannavarna og koma á neyðaráætlun með skilvirkum hætti inn í boðunarkerfi lögreglu eins og sagði í grg. með frv. Þetta voru rökin með breytingunum.

En hver er svo raunin? Þeir sem sinna björgunaraðgerðunum í Skógarhlíðinni eru með þetta fullkomna TETRA-kerfi. Landsbjörg er að koma því upp en það er engin stjórn eða fyrirmæli frá yfirvöldum um að allir skuli nota þetta sama kerfi. Maður heyrir af því að verið sé að fjárfesta í dýrum nýjum tækjum hjá lögregluembættum og hjá sveitarfélögum úti á landi án þess að það séu tæki sem eru samrýmanleg því kerfi sem björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð notar þannig að ekki er hægt að hafa samskipti við hana. Þetta er mjög mikilvægt atriði því að í Skógarhlíðinni eru allir viðbragðsaðilar með sína stjórnstöð. Það vantar greinilega yfirvald yfir málaflokkinn til að taka á málum, til að stjórna því til að senda út skilaboð um að það skuli hafa hér samræmdan tækjabúnað og það er auðvitað hæstv. ráðherra sem ætti gera það.

TETRA-kerfið er dýrt en úr því að menn eru komnir með þetta kerfi í samræmda stjórnstöð þá verða menn að útbúa sig með sama hætti þannig að hægt sé að stjórna öllum björgunaraðgerðum og öðrum aðgerðum frá björgunarstöðinni í Skógarhlíðinni með sama útbúnaði þannig að hún verði sú öfluga miðstöð sem henni var ætlað í lagabreytingunni í fyrra því að öryggi landsmanna er í húfi hvað þetta varðar.