Samræmt fjarskiptakerfi

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:37:15 (2538)

2003-12-03 20:37:15# 130. lþ. 41.21 fundur 368. mál: #A samræmt fjarskiptakerfi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:37]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Eitt af því mikilvægasta í björgunar- og öryggismálum er að tryggja snurðulaus samskipti björgunaraðila á neyðarstundu. Fyrir nokkrum árum var ákveðið að lögreglan tæki í notkun TETRA-fjarskiptakerfið og hefur það verið notað á suðvesturhorni landsins með góðum árangri. Að því er stefnt að þetta kerfi nái að lokum til landsins alls en fyrirsjáanlegt er að kostnaður við það er mikill og hefur fyrirtæki það sem veitir þá fjarskiptaþjónustu átt í verulegum rekstrarvanda á undanförnum mánuðum og missirum. Verið er að fara yfir stöðu mála í samvinnu við fjmrn. og eigendur fjarskiptafyrirtækisins og er ekki ljóst á þessari stundu hvernig úr greiðist.

Hið faglega mat stendur hins vegar óhaggað, þ.e. að stefna beri að því að allir aðilar sem sinna öryggis- og björgunarmálum noti samræmt fjarskiptakerfi. Rétt er að geta þess að þeir sem standa á bak við fyrirtækið TETRA-Ísland, sem veitir þessa þjónustu, er Landsvirkjun annars vegar og Orkuveita Reykjavíkur hins vegar.