Stjórnstöðin í Skógarhlíð

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:47:01 (2543)

2003-12-03 20:47:01# 130. lþ. 41.22 fundur 370. mál: #A stjórnstöðin í Skógarhlíð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:47]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Fyrr á þessu ári skrifuðu allir þeir aðilar sem með einum eða öðrum hætti koma að leit og björgun í landinu undir samstarfssamning um starfrækslu leitar- og björgunarmiðstöðvar í Skógarhlíð. Sá samningur er afrakstur þróunar síðustu ára sem öll hefur miðað að því að einfalda og gera skilvirkara allt leitar- og björgunarstarf í landinu. Hin nýja og fullkomna björgunarmiðstöð í Skógarhlíð sem tekið hefur til starfa er eitt mikilvægasta skrefið í þeirri þróun.

Það er mikilvægt að settar verði skýrar reglur um starfsemi í stjórnstöðinni. Nú liggur fyrir að vaktstöð siglinga verður staðsett í Skógarhlíðinni en með því er öryggi landsmanna enn aukið. Allir þeir sem að þessum málaflokki koma telja afar brýnt að hafa allar þær mikilvægu stjórnstöðvar á einum stað sem nú eru sameinaðar í Skógarhlíð. Hröð og fumlaus viðbrögð og náin samvinna allra björgunaraðila eru mikilvægustu þættirnir í því að vel takist til í björgunarstarfi.

Svarið við spurningunni um það hvort áformað sé að setja reglur um leitar- og björgunarþáttinn í starfsemi stjórnstöðvarinnar í Skógarhlið er jákvætt. Áformað er að fara ítarlega yfir öll lög og reglur sem gilda á þessu sviði í ljósi þróunar síðustu missira og í kjölfar þeirrar athugunar verði settar skýrar reglur um þessa starfsemi. Þetta tengist líka vinnu sem komin er í gang við heildarendurskoðun almannavarnalaga en hún er unnin á vegum almannavarnaráðs. Það tengist einnig vinnu í tengslum við endurskipulag lögreglumála sem fyrr var rætt á þessum fundi.

Eins og nú er háttað fer starfsemin hins vegar fram á grunni gildandi laga og reglna eins og áðurnefndur samstarfssamningur er byggður á.

Ég vil einnig láta þess getið að frá og með næstu áramótum breytist verkaskipting á milli samgrn. og dómsmrn. þannig að öll björgunarmál munu færast undir dómsmrn. og þá verður auðveldara að takast á við setningu slíkra reglna og samræmingu starfa og, eins og ég kom að áður í þessu svari, hefur verið tekin ákvörðun um að vaktstöð siglinga verði í Skógarhlíðinni. Hafinn er undirbúningur með víðtækri þátttöku allra sem að því máli koma að því að flytja vaktstöðina þangað og koma henni þar upp á þann hátt að hún geti sinnt störfum sínum miðað við auknar kröfur til siglingaverndar og auknar kröfur að sjálfsögðu um öryggi á hafinu. Ég fullyrði að við erum í raun komin í fremstu röð þegar litið er til þess hvernig staðið er að slíkum málum á heimsvísu því að á fáum stöðum hefur tekist á jafnfarsælan hátt að mínu mati að samræma og samhæfa upplýsingamiðlun og yfirstjórn björgunarmála á þann veg sem tekist hefur í Skógarhlíðinni og mun verða unnið að því áfram að styrkja þennan þátt í öryggiskerfi landsmanna.