Neyðarlínan

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:53:43 (2546)

2003-12-03 20:53:43# 130. lþ. 41.23 fundur 372. mál: #A Neyðarlínan# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:53]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Þetta er fimmta og síðasta spurningin um öryggismálin sem ég beini til hæstv. dómsmrh. í kvöld. Mig langar áður en ég beini fyrirspurninni til hans aðeins að svara síðustu ræðu ráðherrans sem hann beindi til mín og gagnrýndi málflutning minn.

Ég tel ráðherra ekki aðeins vera viðskiptavin, ég tel hann vera yfirmann öryggismála og að honum beri að beita sér fyrir því að sendum verði breytt þannig að það sé hægt að sinna þessu kerfi. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég ætla að snúa mér að fyrirspurninni.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmann um að halda sig við efni fyrirspurnarinnar.)

Þetta er hluti af fyrirspurninni sem varðar öryggismál en hér er fyrirspurn mín:

Hvað er því til fyrirstöðu að Neyðarlínan svari fleiri neyðarnúmerum en 112, svo sem númerinu 911?

Eins og allir ættu að vita hér á landi er neyðarnúmerið á Íslandi 112, og svarar Neyðarlínan því númeri, en í ýmsum öðrum löndum, eins og t.d. í nágrannalöndum okkar, eru önnur númer. Ég nefni t.d. Bretland sem er með 999 og í Bandaríkjum Norður-Ameríku og ég held bara í allri Norður-Ameríku er neyðarnúmerið 911.

Hingað koma fjölmargir erlendir ferðamenn. Fjöldi Bandaríkjamanna kemur hingað og fjöldi Bandaríkjamanna býr á Reykjanesinu, í herstöðinni, og þeir ferðast mjög mikið um landið. Því miður hafa undanfarið orðið alvarleg slys á ferðamönnum og þegar eitthvað kemur alvarlegt upp á er ekkert ólíklegt að menn grípi símann og hringi í það neyðarnúmer sem mönnum er efst í huga. Ég veit til þess að þó að neyðarnúmerið í Bretlandi sé 999 svarar Neyðarlínan þar líka ef það er hringt í 112 eins og hér og kannski einhverjum fleiri númerum. Það er öryggisatriði að Neyðarlínan taki við símtölum úr fleiri númerum en 112, t.d. 911 sem er mjög þekkt neyðarnúmer um stóran hluta heimsins. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að Neyðarlínan taki við símtölum og svari fleiri númerum en 112, neyðarnúmerinu sem er opinbert númer hér á landi.