Neyðarlínan

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 20:56:40 (2547)

2003-12-03 20:56:40# 130. lþ. 41.23 fundur 372. mál: #A Neyðarlínan# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[20:56]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Neyðarnúmerið 112 var ákveðið hér á landi með gildistöku EES-samningsins og í dag gildir um það nýleg tilskipun frá árinu 2002 sem fjallar um svokallaða alþjónustu í fjarskiptum og nær til alls EES-svæðisins. Hugmyndin með samræmdu neyðarnúmeri í ESB og á EES-svæðinu byggist á því að íbúar á hinu sameiginlega efnahagssvæði þurfa aðeins að leggja á minnið eitt neyðarnúmer sem gildi hvar sem menn eru staddir á svæðinu. Það gildir því í öllum ríkjunum en mismunandi er hvernig svarþjónustu er háttað, t.d. hvort það er lögreglan sem svarar í símann eða aðrir aðilar, t.d. á sviði heilbrigðisþjónustu eða annarrar slíkrar almannaþjónustu. Því eru sums staðar samtengd viðbótarnúmer og sama númeraröð notuð, t.d. 113 eða 115.

Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda er númerið 911 notað í Bandaríkjunum og Kanada og tæknilega væri hægt að tengja það við 112 en hætt er við að það gæti skapað óvissu og glundroða að þurfa að kynna fleiri númer fyrir þessa þjónustu, auk þess sem nokkur viðbótarkostnaður yrði af því.

Eins og ég segi er ekkert tæknilega því til fyrirstöðu að menn noti hér 911, hringi í það númer og láti 112 svara en ég verð að spyrja á móti: Hvers vegna eru þá ekki Bandaríkjamenn og Kanadamenn með símanúmerið 112 þegar menn eru þar o.s.frv.? Ég veit ekki hvert svona rökleiðsla leiðir okkur í sjálfu sér en við höfum samningsbundnar skyldur til þess að hafa neyðarnúmerið 112. Við getum væntanlega, ef við leggjum í þann kostnað, látið þá sem hringja í 911 ná til 112 og vafalaust getum við valið líka fleiri númer því að þau eru mörg og mismunandi eftir löndum eins og við vitum. Svo fer eftir ferðamönnum væntanlega hvernig þeir bregðast við á hættustundu, hver og einn, þegar þeir ætla að hringja í þá sem þeir telja að geti hjálpað sér við slíkar aðstæður. Við höfum þá meginreglu og samningsbundnar skyldur að hafa neyðarnúmerið 112. Það er verið að samræma það alls staðar í Evrópu eins og hv. þm. geta kynnt sér ef þeir ferðast þar. Þá sjá þeir að þetta númer er að ryðja sér til rúms víða og samkvæmt ákvörðunum Evrópusambandsins er það hið sama evrópska númer. Ég veit ekki hvort menn vilja skorast undan því að nota það númer og velja frekar 911. Ég er ekki þeirrar skoðunar.