Lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 10:35:27 (2554)

2003-12-04 10:35:27# 130. lþ. 42.91 fundur 205#B lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[10:35]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka þessar ágætu upplýsingar. Það liggur þá fyrir að það er ekki von á því að þetta álit sé í höndum þingsins þegar við hefjum 3. umr. fjárlaga. Það hlýtur þá að þýða að ríkisstjórnin dragi til baka það ákvæði og þær tillögur sem varða vaxtabætur.

Það hefur komið fram í efh.- og viðskn. og undir það verið tekið af hv. formanni nefndarinnar og reyndar öðrum þingmönnum stjórnarliðsins í nefndinni að það kunni að vera tvímæli á því hvort ákvæðið standist tiltekna grein stjórnarskrárinnar sem við samþykktum 1995. Það er alveg ljóst eftir þann viðurgjörning sem ríkisstjórnin hefur fengið af hálfu dómstóla að því er stjórnarskrána áhrærir að menn eiga ekki að taka neina áhættu í þessum efnum. Þess vegna hlýtur það að vera svo, herra forseti, ef málið er þannig vaxið að álitið liggur ekki fyrir fyrr en 8. desember að ótækt sé að afgreiða fjárlög að því er þennan þátt þeirra varðar.