Lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 10:38:30 (2556)

2003-12-04 10:38:30# 130. lþ. 42.91 fundur 205#B lögfræðiálit frá Lagastofnun HÍ# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[10:38]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Aðeins til að taka undir það sem hér hefur komið fram varðandi lögfræðiálitið út af enn einni árás hæstv. ríkisstjórnar á velferðarkerfið, þ.e. að ætla sér að skerða vaxtabætur upp á 600 millj. eins og boðað er í fjárlagafrv. Ég átti þess kost að sitja einn fund í efh.- og viðskn. þegar þetta mál kom þar á dagskrá og það var fyrir forgöngu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem þess var krafist að leitað yrði álits lögfræðinga á þeirri afturvirkni sem þar var boðuð. Það tók stjórnarmeirihlutann í nefndinni töluvert langan tíma að kyngja því og viðurkenna þá staðreynd að hér gæti verið um stjórnarskrárbrot að ræða. Mig minnir að formaður nefndarinnar, hv. þm. Pétur Blöndal, hafi orðað það svo að ef einhver vafi væri ætti stjórnarskráin að njóta vafans. Það gleður mig því sannarlega að stjórnarmeirihlutinn hafi samþykkt þá kröfu okkar að málið yrði sent til háskólans og leitað umsagnar. Ég hef hins vegar sagt, virðulegi forseti, að ef stjórnarflokkarnir ætla að þumbast við og keyra þetta mál í gegn, eins og þeir virðast ætla að gera, þannig að þeir sem rétt eiga á vaxtabótum fyrir árið 2003 og eru t.d. í greiðslumati þessa dagana samkvæmt lögum en verða skertir vegna laga sem verða sett núna rétt fyrir jólaleyfi, þá væri þess vegna mátulega gott á hæstv. ríkisstjórn að einhver íbúðarkaupandi í landinu færi í mál við ríkissjóð gagnvart þessu og fengi þá hæstv. ríkisstjórn enn eitt búmerangið í hausinn fyrir að brjóta stjórnarskrána. Það væri mátulega gott á hæstv. ríkisstjórn.