Lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:06:14 (2574)

2003-12-04 11:06:14# 130. lþ. 42.95 fundur 209#B lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að fákeppni ríki ekki áfram á lyfjamarkaði. Nú eru tvær verslanakeðjur ríkjandi á markaðnum og þrengja mjög að öðrum sem þar eru. Þetta er ástand sem þarf að huga alvarlega að og tryggja að Samkeppnisstofnun geti tekið á.

Með lagabreytingunni 1994 var markmiðið að stuðla að samkeppni í lyfsölu sem átti að færa almenningi lægra verð og betri þjónustu. Það er ekki hægt að segja annað en sú hafi verið þróunin a.m.k. fyrstu árin eftir breytinguna. Þegar stjórnvöld hafa hækkað hlut sjúklinga á lyfjaverðinu hafa apótekin keppst um að minnka álag sitt á lyfin til að reyna að ná til sín viðskiptunum. Þetta hefur komið sjúklingum til góða a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu en sjúklingar á landsbyggðinni hafa ekki notið þess á sama hátt.

Nú er svo komið að þessu er ekki lengur að heilsa. Apó\-tekin sem tóku á sig hækkanir stjórnvalda á hlut sjúklings í stað þess að hleypa þeim út í verðlagið hættu því fyrir um tveimur árum síðan og hafa síðustu tvær lyfjahækkanir hins opinbera á hlut sjúklinga lent beint á sjúklingum. Dæmi um hækkanir til sjúklinga frá 1998 eru t.d. að algeng þvagræsilyf, E-merkt, hafa hækkað um 46%, algeng geðlyf, B-merkt, hafa á sama tíma hækkað um 97% og magalyf, E-merkt, hafa hækkað til sjúklinga um 50%. Það er mjög mikilvægt að lyfjaverð til sjúklinga haldist sem lægst því að fólk verður að geta keypt lífsnauðsynleg lyf. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hafa ráðamenn íhugað að aflétta virðisaukaskatti af lyfjum? Svíar og Bretar eru ekki með neinn virðisaukaskatt á þeim svo að dæmi sé tekið og aðrar nágrannaþjóðir okkar eru með mjög lágan virðisaukaskatt á lyfjum.

Herra forseti. Fyrst og fremst þetta: Það verður að tryggja að eðlilegt viðskiptaumhverfi ríki í lyfsölu til hagsbóta fyrir almenning í landinu.