Lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:21:18 (2580)

2003-12-04 11:21:18# 130. lþ. 42.95 fundur 209#B lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði# (umræður utan dagskrár), BÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:21]

Birgir Ármannsson:

Herra forseti. Lyfjamarkaðurinn er að mörgu leyti frábrugðinn mörkuðum fyrir ýmsar aðrar neysluvörur. Valfrelsi neytenda er takmarkað vegna þess að fólk kaupir yfirleitt ekki lyf nema vegna brýnnar nauðsynjar og hefur eðli málsins samkvæmt takmarkaða möguleika á að velja sjálft milli lyfja. Í annan stað er ríkið beint og óbeint langstærsti greiðandi vegna lyfjanna og í þriðja lagi kemur til opinbert verðlagseftirlit sem birtist í því að lyfjaverðlagsnefnd ákveður hámarksverð á lyfjum bæði í heildsölu og smásölu. Í fjórða lagi gilda um lyfjamarkaðinn viðamiklar opinberar reglur til þess að tryggja öryggi lyfja og gæði í þjónustu lyfjafyrirtækjanna.

Öll þessi atriði skapa lyfjamarkaðnum ákveðna sérstöðu í samanburði við ýmsa aðra markaði og almenn samstaða er um að í þessum efnum sé eðlilegt að hið opinbera hafi meiri afskipti með reglusetningu heldur en á flestum öðrum sviðum. Hins vegar hafa einkaaðilar líka mikilvægu hlutverki að gegna á þessum markaði og samkeppni á milli þeirra er afar mikilvæg til þess að stuðla að góðri þjónustu og hagstæðri verðlagningu.

Hér við þessa umræðu er spurt hvort samkeppni sé næg á lyfjamarkaði. Eins og víða er í viðskiptalífinu má halda því fram að samkeppni mætti vissulega vera meiri. Samkeppnin er þó fyrir hendi. Um tíu fyrirtæki stunda innflutning lyfja og þrjú eru í framleiðslu. Sum þessara fyrirtækja tengjast í gegnum samsteypur en engin ein hefur yfirgnæfandi markaðshlutdeild. Þau hafa líka umboð fyrir fjöldamörg erlend lyfjafyrirtæki sem keppa innbyrðis og þetta umhverfi veitir auðvitað ákveðið aðhald.

Á smásölumarkaðnum hefur orðið þróun í átt til samþjöppunar. Á þeim markaði ríkir þó grimm samkeppni sem vissulega hefur reynst smærri aðilum erfið. Litlir aðilar hafa eðli málsins samkvæmt minni möguleika á hagstæðum innkaupum, sparnaði á ýmsum föstum kostnaði, hagkvæmni í dreifingu og ýmsum slíkum þáttum heldur en stærri aðilar.

Við höfum séð sömu þróun á ýmsum öðrum mörkuðum í smásölu, bæði hérlendis og erlendis og þessi þróun er á engan hátt bundin við Ísland. (Forseti hringir.) Hins vegar verðum við að gæta þess að samkeppnisreglur séu virtar og að stærri aðilarnir beiti ekki afli sínu til þess að (Forseti hringir.) draga úr samkeppninni með því að koma smærri aðilum út með ólögmætum hætti.