Lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:28:38 (2583)

2003-12-04 11:28:38# 130. lþ. 42.95 fundur 209#B lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem um margt hefur verið mjög fróðleg. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem ég hefði þó kosið að væru ítarlegri eða fælu í sér einhver loforð um úrbætur.

Ég vek að nýju athygli á niðurlagsorðum mínum hér við umræðuna, að samkvæmt fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar er áformað að auka álögur á sjúklinga á komandi ári um 740 millj. kr. Þetta eru komugjöld, þetta er aukin þátttaka í lyfjakostnaði, hjálpartækjum og öðru slíku. Í stað þess að fara þessa leið til sparnaðar með því að auka byrðar á sjúklinga leggjum við til að ríkisstjórnin beini sjónum sínum að lyfjakostnaði. Þar er hægt að ná verulegum árangri.

Forstjóri Tryggingastofnunar, Karl Steinar Guðnason, segir að ef hægt væri að færa tíu útgjaldamestu lyfin til samræmis við það sem tíðkast á Norðurlöndum mundi Tryggingastofnun ein spara 300 millj. kr. Þetta er verkefni sem verður að ráðast í.

[11:30]

Hæstv. ráðherra segir að ekki standi til að breyta lögum eða reglum og vísar til samkeppnislaga og Samkeppnisstofnunar. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna í leiðara Morgunblaðsins í dag. Þar segir:

,,Frá því var sagt í Morgunblaðinu í fyrradag að nýtt tryggingafélag á markaðnum, Íslandstrygging, hefði í desember í fyrra sent Samkeppnisstofnun kæru vegna viðskiptahátta tryggingafélaga, sem fyrir voru á markaðnum. Farið var fram á bráðabirgðaúrskurð í málinu, en Samkeppnisstofnun setti málið í venjulega meðferð. Í maí síðastliðnum --- fyrir meira en hálfu ári --- sendi stofnunin Íslandstryggingu bréf og tilkynnti að gagnaöflun væri lokið og málið yrði lagt fyrir næsta fund samkeppnisráðs. Síðan hefur ekkert heyrst af því.``

Ég er ekki einn af þeim, herra forseti, sem vilja gera Samkeppnisstofnun að leiðtoga lífs síns. Það er vegna þess að ég hef ekki trú á markaðnum. En þar sem samkeppni á að ríkja og við ætlum að nýta markaðslögmálin þá eigum við líka að gera það. Þá ber stjórnvöldum einnig að axla ábyrgð. Það hafa þau því miður ekki gert.