Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:39:26 (2587)

2003-12-04 11:39:26# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., BÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:39]

Birgir Ármannsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir það fyrsta fagna þeim breytingum sem þetta frv. boðar, þ.e. að einkaleyfi ÁTVR til innflutnings og framleiðslu tóbaks verði afnumið. Hins vegar vildi ég við þessa umræðu lýsa þeirri skoðun minni að ég teldi að heppilegra og eðlilegra hefði verið að ganga lengra, að heildsöluþátturinn yrði einnig tekinn út. Það hlutverk sem ÁTVR á að hafa samkvæmt lögunum, ef þessi breyting nær fram að ganga, að vera milliliður í þessum efnum, tel ég óeðlilegt. Ég tel að réttara hefði verið að ganga lengra og láta algerlega af afskiptum ÁTVR af þessum málum.

Það er ljóst að öðrum markmiðum í tóbaksmálum, tóbaksvörnum og gjaldtöku af tóbaki, má koma fyrir með öðrum hætti en með því að láta ÁTVR hafa milligöngu. Ég átta mig ekki á því af hverju skrefið var ekki stigið til fulls og heildsöluþátturinn einnig tekinn út. Þó að það felist ekki í efnisatriðum þessa frv. þá byggist þetta viðhorf mitt fyrst og fremst á því að ég tel að verslun eða slík fyrirtæki á vegum ríkisins eigi yfir höfuð ekki neitt erindi. Ég tel að ÁTVR hafi fyrir löngu lifað sinn dag og ástæða sé til að leggja það fyrirtæki alveg af og koma verslunarháttum með þessar vörutegundir fyrir með öðrum hætti.

Helstu rökin fyrir tilvist ÁTVR eru byggð á heilsufarssjónarmiðum. Mér finnst skjóta skökku við að talið sé nauðsynlegt að hafa heildsöluþáttinn hjá ÁTVR í tóbakinu til að gæta að heilsu landsmanna en smásöluna hjá einkaaðilum. Þegar kemur að áfenginu snýst það hins vegar alveg við þannig að heildsöluþátturinn er í höndum einkaaðila og smásöluþátturinn hjá ríkinu. Mér finnst gæta töluverðs ósamræmis í þessu.

Engu að síður vildi ég lýsa stuðningi við þetta frv. eins og það liggur fyrir þótt ég teldi að ganga hefði mátt lengra. Ég er sannfærður um að það muni fá afskaplega jákvæða meðferð í efh.- og viðskn.