Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:48:47 (2592)

2003-12-04 11:48:47# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:48]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Herra forseti. Vissulega kann að vera samhengi á milli dreifingarinnar og útbreiðslunnar og neyslunnar. Það kann vissulega að vera. Ég hef hins vegar enga sannfæringu fyrir því að það snúist um það hvort starfsmennirnir sem afgreiða vöruna séu ríkisstarfsmenn eða starfsmenn einkafyrirtækja.

Varðandi mun á einstökum löndum, t.d. á áfengisneyslu, þá vitum við að heildarneysla áfengis er víða meiri en á Íslandi og víða meiri en í öðrum löndum Skandinavíu þar sem áfengiseinkasala er enn við lýði. Hins vegar getur það átt sér ýmsar skýringar. Ein skýringin kann að vera ólíkt drykkjumynstur, ólíkt neyslumynstur sem á sér að einhverju leyti sögulegar rætur. Auk þess sem heildarneyslan er kannski ekki akkúrat það sem við þurfum að hafa mestar áhyggjur af, heldur ofneysla, misnotkun áfengis sem ég held að sé síst minni hér á landi eða í Svíþjóð eða Noregi en í þeim löndum þar sem heildarneyslan kann að vera meiri.