Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:51:21 (2594)

2003-12-04 11:51:21# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:51]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það skjóti nokkuð skökku við að tala annars vegar um að dreifingin á vörutegundinni valdi vissulega meiri neyslu og síðan hins vegar, eins og fram hefur komið í máli þingmanna, að í staðinn fyrir að sala áfengis fari fram á vegum einkaaðila sé réttara að þjónusta ÁTVR verði bætt. Nú vitum við að þjónusta ÁTVR hefur batnað á undanförnum árum, vínbúðum hefur fjölgað og opnunartíma verið breytt. Það hefur hins vegar ekki verið beinlínis í samræmi við þá pólitík sem stundum hefur verið rekin og notuð til að rökstyðja tilvist ÁTVR, að það beri að takmarka aðgengið að vörunni. Það eru því ákveðnar mótsagnir í málflutningi þeirra sem vilja standa vörð um ríkiseinkasölu í smásölu á áfengi.

Varðandi það að hvaða leyti heilbr.- og trn. kæmi inn í þetta mál þá kann að vera --- ég veit ekki hver er venjan í þinginu í þeim efnum --- ef nefndin óskar eftir því að fá málið til umsagnar frá efh.- og viðskn. að við getum orðið við því. En ég hygg að niðurstaðan verði sú, eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, að málið snerti á engan hátt þá forvarnaþætti og öryggisþætti sem snúa að heilbrigðismálum.

Varðandi það sem kom fram í máli síðasta hv. þm. sem hér talaði að það sé einhver mótsögn og vantrú af minni hálfu á þætti einkaaðila í dreifingu og smásölu áfengis, þá ítreka ég sjónarmið mín um það að ég tel að hætturnar, sem vissulega geta falist í vörum af þessu tagi, aukist ekkert við það að starfsmenn einkafyrirtækja afgreiði vöruna í stað starfsmanna ríkisins.