Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:11:52 (2602)

2003-12-04 12:11:52# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:11]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held reyndar að það sé ofmælt að kalla mig einhvern sérstakan talsmann Samf. í þessum málaflokki, en ég þakka titilinn.

Ég sé einfaldlega enga ástæðu fyrir því að ríkið standi í innflutningi á þessari vöru frekar en öðrum. Um það finnst mér þetta mál snúast.

Varðandi frelsi frá Brussel þá höfum við mýmörg dæmi um það, sem snerta nánast öll svið íslensks samfélags, að frelsið hefur aukist í gegnum okkar EES-samning sem byggir á því að við þurfum að taka allt að 80% af allri löggjöf ESB inn í okkar löggjöf. Þar er auðvitað skýrasta dæmi um aukið frjálsræði á fjármagnsmarkaði.

Ég vil líka hvetja hv. þm. Ögmund Jónasson að fara varlega í að hallmæla þeim réttarbótum sem koma frá Brussel í ljósi þeirrar byltingar sem tilskipanir Evrópusambandsins hafa fært íslensku launafólki með auknum réttindum og réttarbótum.