Lokafjárlög 2000

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:15:16 (2604)

2003-12-04 12:15:16# 130. lþ. 42.4 fundur 326. mál: #A lokafjárlög 2000# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2000 sem dreift hefur verið á þskj. 377. Frv. var lagt fyrir Alþingi á vorþingi en var þá ekki afgreitt og er nú endurflutt óbreytt.

Frv. er lagt fram í samræmi við lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, til staðfestingar á ríkisreikningi fyrir árið 2000. Framsetning á talnaefni þessa frv. er í samræmi við fjárlög og fjáraukalög ársins 2000 og niðurstöður ríkisreiknings fyrir sama ár og er með sama sniði og frv. til lokafjárlaga fyrir árin þar á undan. Í frv. er stuðst við sömu vinnureglur um uppgjör og ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok og í lokafjárlögum fyrri ára.

Efnisatriði frv. eru í stórum dráttum á þá leið að í 1. gr. er leitað heimilda til að breyta fjárveitingum í sama mæli og reikningsfærðar ríkistekjur hafa samkvæmt uppgjöri vikið frá áætlunum fjárlaga. Þar er þá um það að ræða að stofnanir eða verkefni sem fjármögnuð eru með hlutdeild í ríkistekjum fái meiri eða minni heimildir til ráðstöfunar á tekjunum eftir því hvort tekjurnar hafa reynst vera meiri eða minni en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í 2. gr. frv. er lögð til niðurfelling á stöðu fjárheimilda í árslok, einkum vegna verkefna sem ráðast af öðrum lögum en fjárlögum, svo sem almannatryggingum, vaxtagjöldum og lífeyrisskuldbindingum. Þar er þá um að ræða afgangsheimildir eða umframgjöld sem ekki flytjast milli ára og koma þar með ekki til breytingar á fjárheimildum ársins á eftir.

Skv. 45. gr. fjárreiðulaga skal í lokafjárlögum leita heimilda til uppgjörs á gjöldum umfram fjárheimildir ársins og ónotuðum fjárheimildum sem ekki eru fluttar milli ára. Einnig skal í frv. gera grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs. Jafnframt skal í frv. leggja fram sérstaka skrá yfir geymdar afgangsfjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins.

Í 37. gr. laganna er heimild til að geyma ónýttar fjárveitingar í lok reikningsársins og með sama hætti að draga umframútgjöld fyrra árs frá fjárveitingu ársins.

Eins og ég gat um eru í 1. gr. frv. lagðar til breytingar á fjárheimildum ráðuneyta vegna frávika í mörkuðum tekjum og öðrum rekstrartekjum miðað við fjárlög en nánari skipting á stofnanir og verkefni er í sundurliðun 1. Er um að ræða breytingar í samræmi við niðurstöður ársins 2000 þar sem útgjaldaheimild er hækkuð í vissum tilvikum sem lögboðnar ríkistekjur hafa reynst vera vanáætlaðar en er lækkuð þegar tekjurnar hafa verið ofáætlaðar.

Sem dæmi um þetta má taka að í frv. er gert ráð fyrir að framlag til Forvarnasjóðs hækki um 2,7 millj. kr. þar sem hlutdeild sjóðsins í áfengisgjaldi skilaði meiri tekjum en áætlað var.

Í 2. gr. frv. er sótt um heimildir til uppgjörs á ónotuðum fjárveitingum og umframgjöldum ráðuneyta sem ekki flytjast á milli ára og vísa ég til nánari skiptingar í sundurliðun 2. Í sumum tilfellum eru heimildir felldar niður í árslok og er þar um nokkuð hefðbundna afgreiðslu að ræða sem lítið breytist á milli ára. Meginviðmiðunin er að felld er niður staða fjárheimilda á þeim liðum þar sem útgjöld ráðast af öðrum lögum, t.d. bótaréttindi velferðarkerfisins eða af hagrænum eða kerfislægum þáttum, t.d. lífeyrisskuldbindingar, fremur en að útgjöldin ráðist af fjármálastjórn tiltekins stjórnsýsluaðila.

Í þessu sambandi er til skýringar rétt að vekja athygli á því að afgangsheimildir framhaldsskóla sem frv. gerir ráð fyrir að falli niður, samtals 583 millj. kr., áttu rætur að rekja til rekstrarstöðvunar vegna verkfalls kennara árið 2000 og var skólunum veitt sérstakt framlag árið eftir til að mæta kostnaði við að ljúka kennslu og prófum.

Í fylgiskjali með frv. er í samræmi við 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins birt yfirlit yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins, þ.e. yfirlit yfir stöðu fjárlagaliða sem færast til næsta árs.

Með frv. eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður ríkissjóðs fyrir árið 2000 og vísa ég til greinargerðar í fjáraukalögum og í ríkisreikningi fyrir það ár um meginatriðin í framvindu ríkisfjármálanna og um helstu frávik hvað varðar tekjur og gjöld.

Þá hefur Ríkisendurskoðun einnig lagt fyrir Alþingi skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings árið 2000 og um hana hefur verið fjallað í fjárln.

Ég hef, herra forseti, aðeins farið almennum orðum um frv. og hlutverk þess í tengslum við lög um fjárreiður ríkisins. Ég tel ekki ástæðu til að tíunda einstaka liði í frv. sem varða uppgjör samkvæmt fyrirliggjandi reikningum en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln. þingsins.