Úrvinnslugjald

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:23:49 (2606)

2003-12-04 12:23:49# 130. lþ. 42.5 fundur 400. mál: #A úrvinnslugjald# (net, umbúðir o.fl.) frv. 144/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:23]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er vegna þess að ég átti sæti í umhvn. á síðasta kjörtímabili að það vakti athygli mína sem hér er verið að leggja til. Mér finnst ástæða til að gera við það athugasemdir en þar á ég við þessa frestun á því að taka úrvinnslugjald á veiðarfæri úr gerviefnum vegna þess að ég þóttist hafa orðið var við það í störfum nefndarinnar á síðasta kjörtímabili að þrýstingur frá sjávarútveginum um að fresta sem lengst því að taka á þeim málum hefði undarlega mikil áhrif á stjórnvöld, eins og svo sem í fleiri málum. Nú er lagt til að þessari gjaldtöku verði frestað um eitt ár og ég sé ástæðu til að gera athugasemd við það. Ég fer fram á það að í hv. nefnd fari menn yfir málin og skoði hvort það eru raunverulegar haldbærar ástæður fyrir því að fresta því að taka upp úrvinnslugjald á veiðarfæri úr gerviefnum.

Ég geri líka athugasemdir við það að ákveðið skuli vera að fresta ótímabundið upptöku úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir. Fyrir umhvn. þvældust málefni af sumu tagi og það var útgerðin hvað varðaði þetta sem ég nefndi hér áðan og það var síðan pappír og pappírsumbúðir vegna þess að einhverjir hafa þar hönd í bagga og geta staðið á bremsunni.

Erindi mitt hingað í ræðustól er fyrst og fremst að vekja athygli á því að þarna standa menn ekki nógu vel í fæturna og ég hvet nefndina til að fara vel ofan í málið aftur, velta því fyrir sér og kalla fram nákvæmar upplýsingar um hvað það er sem stendur í vegi fyrir því að hægt sé að taka á þessum málefnum hvað varðar pappír og gerviefni sem eru notuð í veiðarfæri því að mér finnst vera brögð að því að það gangi ekki sama yfir alla í atvinnurekstri þegar verið er að setja nýjar reglur eins og þessar.