Úrvinnslugjald

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:27:01 (2607)

2003-12-04 12:27:01# 130. lþ. 42.5 fundur 400. mál: #A úrvinnslugjald# (net, umbúðir o.fl.) frv. 144/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:27]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar varðandi það sem kom fram í ræðu hans og rifja um leið upp að umhvn. Alþingis sem fjallaði um þetta mál, fyrir tæpum tveimur árum ef ég man rétt, fór mjög ítarlega ofan í saumana á þessu öllu saman. Það var vilji nefndarinnar þá að veiðarfærin yrðu sett inn frá og með 1. janúar 2004 og það var mjög vandlega skoðað af hálfu nefndarinnar að það yrði framkvæmanlegt. Sama gildir um umbúðirnar, umhvn. var samhljóða í þeirri afstöðu sinni. Hún vann málið afskaplega vel og ígrundaði bráðabirgðaákvæðin mjög vel þegar þau voru sett í lögin.

Mér finnst hæstv. fjmrh. þurfa að gefa okkur einhvern rökstuðning fyrir því sem er haldbetri en rökstuðningur umhvn. frá síðasta kjörtímabili fyrir þeirri breytingu sem hér er lögð til.

Ég ætla auðvitað þeirri umhvn. sem nú starfar að hún taki þetta mál fyrir og skoði þau gögn sem lágu fyrir nefndinni á sínum tíma þegar þessar ákvarðanir voru teknar en ég vil bara að það sé algjörlega hreint hér og allir skilji það og viti að umhvn. var samhljóða í ályktun sinni, í nál. sínu, þegar þessar breytingar voru lagðar til við lögin og þegar bráðabirgðaákvæðið var samið. Við töldum afar mikilvægt að þessu yrði komið á í áföngum. Við töldum okkur vera að veita rúman tíma til þess og ég tel ekki vera þau tilefni til hér að lengja þessa fresti enn meir en umhvn. taldi á sínum tíma að þyrfti að vera. Ég held að umhvn. sú sem nú starfar þurfi að fara mjög vel ofan í þessi mál og röksemdafærsla ráðuneytisins þarf þá að vera alveg á hreinu ef það á að sannfæra nefndina um að þessi breyting sé til góðs.