Úrvinnslugjald

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:28:48 (2608)

2003-12-04 12:28:48# 130. lþ. 42.5 fundur 400. mál: #A úrvinnslugjald# (net, umbúðir o.fl.) frv. 144/2003, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:28]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel mjög eðlilegt að þingmenn spyrji spurninga varðandi þetta frv. og framkvæmdina á lögunum um úrvinnslugjald sem nú er að mótast. Það er hins vegar þannig að þó að þetta málefni heyri undir umhvrh. og úrvinnslan á úrvinnslugjaldinu sé þar til húsa, og Úrvinnslusjóður, er gjaldtakan eðli málsins samkvæmt á forræði fjmrh. Ég flyt hér tillögur sem eiga uppruna sinn í stjórn Úrvinnslusjóðsins sem hefur komið þeim til ráðuneytis síns sem hefur síðan í samráði milli ráðuneytanna tveggja búið til þær tillögur sem eru í þessu frv.

En hvað er verið að leggja hérna til? Það er m.a. verið að leggja til að framkvæmdinni á álagningu úrvinnslugjalds á veiðarfæri verði frestað um eitt ár vegna þess að að mati þeirra sem sitja í stjórn Úrvinnslusjóðs þarf þetta mál lengri aðdraganda. Ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp úr greinargerð með 3. gr. frv. þar sem segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Nauðsynlegt er að hafa lengri aðdraganda að álagningu þar sem nætur og hugsanlega fleiri veiðarfæri eru gjarnan boðin út með nokkrum fyrirvara og því viðbúið að þau séu í vinnslu og þurfi að greiða af þeim úrvinnslugjald án þess að tekið hafi verið tillit til þess í tilboði.`` --- Sem sagt, ef gjaldið kemur á um næstu áramót.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þá er hægt að skoða nánar hvernig best er að standa að endurgreiðslu vegna útflutnings og kanna leiðir til að einfalda innheimtu á innlenda framleiðslu eins og gert er t.d. með innheimtu á samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvörur. Þá þarf einnig að kanna leiðir til að tryggja samkeppnisaðstöðu innlendra framleiðenda vegna veiðarfæra sem tekin eru beint í skip þegar þau eru keypt erlendis og notuð áður en komið er með þau að landi hér. Þá er erfitt fyrir innheimtumenn ríkissjóðs að sannreyna hvort þau eru ný eða ekki og leggja á þau úrvinnslugjald.``

Þetta er skýringin varðandi veiðarfærin. Hér er eingöngu um að ræða frestun.

Varðandi pappann og þá þætti sem einnig var minnst á, pappír, pappa og plastumbúðir, er því haldið fram að undirbúningur fyrir slíka gjaldtöku sé ekki enn sem komið er nægur og það krefjist töluverðrar undirbúningsvinnu að hefja gjaldtöku á þessa vöruflokka vegna þess hversu víða þeir komi fyrir í vöruframleiðslu og innflutningi. Nú er unnið að því á vegum Úrvinnslusjóðs að undirbúa álagninguna á þessa vöruflokka og fyrirhugað að þegar það liggur fyrir verði flutt nýtt frv. um það, vonandi þá við fyrsta tækifæri, vonandi á yfirstandandi þingi.

Þetta eru þær skýringar, herra forseti, sem ég vildi leyfa mér að koma hér að í tilefni af ummælum hv. tveggja síðustu ræðumanna. Ég vona að þetta skýri málið a.m.k. að einhverju leyti fyrir þeim. Að öðru leyti tel ég mjög eðlilegt að þingnefndin sem fær þetta mál til meðferðar afli frekari upplýsinga, hugsanlega umhvn. þingsins líka, en ég bendi þó á að vegna tímaákvæða í þessu frv. er brýnt að það nái fram að ganga fyrir jólaleyfi vegna þess að það gerir ráð fyrir því að fresta gjaldtöku sem ella hæfist um næstu áramót.