Úrvinnslugjald

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:36:55 (2611)

2003-12-04 12:36:55# 130. lþ. 42.5 fundur 400. mál: #A úrvinnslugjald# (net, umbúðir o.fl.) frv. 144/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:36]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þann tón í ræðu hæstv. fjmrh. sem lýtur að prinsippinu í þessu máli. Mér þykir það mikils virði að hæstv. ráðherra lýsi því yfir að hann sé hlynntur því að þessum málum sé komið í þann farveg sem lögin gera ráð fyrir. Ég vil benda á að ekki þarf að vera mikill dráttur á umræðum um málið í nefndunum þó svo að umhvn. fái málið til einhverrar skoðunar, þar sem við erum með nefndadaga í næstu viku bæði 8. og 9. desember.

Varðandi hins vegar það atriði í andsvari hæstv. ráðherra sem lýtur að aðilum atvinnulífsins, þá er auðvitað eðlilegt að upplýsa það hér að það voru aðilar atvinnulífsins sem mótmæltu á sínum tíma og svona þráuðust við, vildu ekki þegar umhvn. var að fjalla um þetta mál, að þessu ákvæði yrði komi á, vildu ekki tímasetninguna. Og ég er að segja að hæstv. ríkisstjórn hlustar oft betur og með opnari eyrum á aðila atvinnulífsins, sem í þessu tilfelli eru t.d. Landssamband íslenskra útvegsmanna að því er ég tel, heldur en þá aðila sem vilja koma úrgangsmálum í skikkanlegt horf.

Ég tel það ámælisvert. Ég tel að ábyrgð ríkisstjórnarinnar eigi fyrst og fremst að hvíla á eða lúta að því að við komum úrgangsmálum og förgunarmálum í það horf sem nágrannaþjóðir okkar hafa verið að færa þau mál til. Þetta mál lýtur í þá átt og þó að atvinnulífið vilji fara hægar í sakirnar og draga lappirnar og telji ekki að þeir hafi haft umþóttunartíma, þá tel ég það alls ekki vera rétt. Umþóttunartíminn hefur verið nægilega langur því frv. kom fram á sínum tíma árið 2001 og menn sáu í hvað stefndi varðandi vilja umhvn. og löggjafans á þeim tíma og hafa haft nægan tíma til að undirbúa sig.