Úrvinnslugjald

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:39:13 (2612)

2003-12-04 12:39:13# 130. lþ. 42.5 fundur 400. mál: #A úrvinnslugjald# (net, umbúðir o.fl.) frv. 144/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:39]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra er nú svolítið í umboði umhvrh. með þetta mál og ég skil það svo sem að hann flytji málið án þess að hafa tekið kannski beint þátt í mótun þess. Umhvrh. hefur hins vegar skrifað upp á þessar tillögur en ég er ekki ánægður með þetta. Ég tel mig reyndar hafa orðið mikið var við þrýsting frá hagsmunaaðilum þegar á þessari meðferð stóð og mér fannst sá þrýstingur vera áberandi úr sjávarútveginum, frá forustunni hjá LÍÚ og aðilum, sumir nefndu nú Moggann í því sambandi vegna pappírsins, sem eiga mikið undir því að þurfa ekki að fara að borga úrvinnslugjöld. Og það eru kannski fleiri sem núna þyrftu að bera þungar byrðar vegna pappírs, því það er eins og maður sé farinn að fá meiri pappír annars staðar frá en Mogganum núna. Mér finnst að það atriði að fresta því ótímabundið að taka á þessum málum hvað varðar pappír og umbúðir sé verra mál en hitt að standa frammi fyrir því að frestað sé um eitt ár hvað varðar veiðarfæri úr gerviefnum. En allt er þetta með sama markinu, að við fundum fyrir þessu þyngslum í nefndarstarfinu og menn halda áfram að vinna og smám saman hola steininn og það er alltaf gefið eftir hjá stjórnvöldum þegar að lokum er komið.