Afgreiðsla fjárlaga

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 13:53:16 (2624)

2003-12-04 13:53:16# 130. lþ. 42.97 fundur 213#B afgreiðsla fjárlaga# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst hæstv. fjmrh., þegar hann vitnar í eina grein þessa lögfræðiálits, vera að slíta þetta úr samhengi við annað, þegar hann er að réttlæta að hlutfallsleg skerðing sem komi niður á stórum hópi sé heimil. Í álitinu er líka tekið fram að skerðing á greiðslum fyrir árið 2003 sé til þess fallin að skerða fyrirvaralaust fjárhagslega hagsmuni heimilanna, enda hafi íbúðareigendur ekki haft möguleika á því að haga fjármálum sínum til samræmis við nýjar reglur. Hvað er verið að gera með þessari nýju brtt.? Það er verið að skerða hjá þeim sem mesta skerðingu fá um 26.000 kr. hjá hjónum, vaxtabætur á næsta ári vegna vaxtagjalda fyrir þetta ár, og um 14.000 kr. hjá einstaklingum. Það eru verulegir fjármunir fyrir marga.

Og að þetta sé heimilt af því að þetta sé stór hópur en ekki lítill finnst mér vera fráleit röksemd, að það sé heimilt að íþyngja heimilunum með afturvirkum hætti af því það sé stór hópur en ekki lítill.

Ég minni bara á öryrkjadóminn sem slíkan, það var nú ekki mjög stór hópur sem Hæstiréttur var að álykta um að ekki yrði skert afturvirkt þar sem bótaþegar ættu kröfuréttindi til bóta í samræmi við reglur sem í gildi voru á þeim tíma þegar réttur til bóta stofnaðist og að þessi kröfuréttindi nytu verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Þetta var ekki mjög stór hópur öryrkja.

Ég held að fjmrn. ætti nú að lesa nánar í þetta ákvæði. Það kom reyndar fram í efh.- og viðskn. að nýja brtt. hefur ekki verið borin undir lögfræðinginn sem gerði þetta álit sem hér hefur verið greint frá. Þess vegna er full ástæða til þess, og við óskuðum eftir því í efh.- og viðskn., að þessi nýja brtt. þar sem á að skerða hjá öllum um 10%, sem eru verulegar fjárhæðir eins og ég nefndi, og koma með þetta á síðustu stundu, að þetta fari í lögfræðiálit hjá Lagastofnun líka. Vegna þess að ég er sannfærð um það og vísa þar í öryrkjadóminn þar sem var um tiltölulega fámennan hóp öryrkja var að ræða, að þetta er ekki heimilt þó hér sé verið að skerða hjá stórum hópi fólks þar sem beita á íþyngjandi ákvæðum með afturvirkum hætti. Það er alveg ljóst, herra forseti. Þess vegna stendur auðvitað það sem við höfum sagt hér að það er a.m.k. ekki hægt að ljúka þessari umræðu um fjárlögin fyrr en álitið sem kallað hefur verið eftir liggur fyrir, sem verður væntanlega ekki fyrr en í næstu viku.