Afgreiðsla fjárlaga

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 13:56:33 (2626)

2003-12-04 13:56:33# 130. lþ. 42.97 fundur 213#B afgreiðsla fjárlaga# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera hlé á þingstörfum svo að okkur gefist tóm til að gera þingflokkum grein fyrir því sem fram kom í efh.- og viðskn. þingsins. Síðan tek ég undir með hæstv. forseta að það væri æskilegt að efnt yrði til fundar með stjórn þingsins, með forseta þingsins og formönnum þingflokka og við réðum ráðum okkar. Við erum ekki sammála um hvernig skuli halda á málum. Við erum að leggja áherslu á að það sé mikilvægt að fá botn í álitamál sem tengjast stjórnarskrá Íslands.

Hæstv. forsrh. kvaddi sér hljóðs hér áðan og sagði að það stangaðist á við vinnulag þingsins til langs tíma. Gæti það verið að það væri að finna eitthvað í vinnulagi þingsins sem þyrfti að laga? Ef þetta hefur tíðkast til langs tíma er kominn tími til að bæta þar úr. Við erum að tala um veigamikinn þátt fjárlaganna, á sjöunda hundrað millj. kr. og það er álitamál hvernig þessum lið fjárlaganna reiðir af. Okkar krafa er sanngirniskrafa. Við erum að óska eftir því að fá skoðun á þessu máli, fá umræðu um þetta mál, fá þessari umræðu frestað og við leggjum mikla áherslu á að hæstv. forseti og stjórn þingsins fallist á að boðað verði hlé á umræðunni nú þannig að okkur gefist tóm til að kalla þingflokka saman og gera þeim grein fyrir stöðunni. Hér á að fara að efna til umræðu um fjárlög og okkur hefur ekki gefist tóm til að koma upplýsingum á framfæri við okkar samflokksmenn um hvers við urðum áskynja í efh.- og viðskn. þingsins. Það er lágmarkskrafa að við fáum hlé á þinghaldinu nú og okkur gefist tóm til að kalla þingflokkana saman.