Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 15:11:33 (2642)

2003-12-04 15:11:33# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna upplýsingum frá hæstv. félmrh. Það staðfestir það sem bent hefur verið á að hér virðist greinilega vera um ágreining að ræða milli ríkisstjórnarflokkanna og er það út af fyrir sig ekki undrunarefni því að þetta mál hlýtur að vera þess eðlis að það gæti ekki verið að það rynni smurt í gegnum báða þingflokka ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. ráðherra telur málið þar af leiðandi vera í eigin höndum þannig að ég dreg þá ályktun af frétt Ríkisútvarpsins í hádeginu sem hæstv. ráðherra hefur sagt að sé röng að það sé þá einnig rangt að þetta mál sé einnig í höndum hæstv. utanrrh., eins og fram kemur í fréttinni, það sé eingöngu í höndum hæstv. félmrh. og það megi þess vegna vænta þess að sú skoðun ýmissa þingmanna Framsfl. nái fram að ganga, að þessi hugmynd verði dregin til baka áður en þingið fer í jólahlé.