Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 15:12:47 (2643)

2003-12-04 15:12:47# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÓJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Guðjón Ólafur Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér hægt að gera ýmsar athugasemdir við ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar en það sem kom mér kannski mest á óvart var hve lítil gleði var hjá hv. þm. yfir auknum framlögum til örorkubóta sem heilbrrh. og ríkisstjórnin hafa beitt sér fyrir. Það liggur fyrir að á þessu ári er varið 2,8 milljörðum kr. í grunnlífeyri örorkubóta. Á næsta ári verður varið 3,8 milljörðum kr. og það er ekki 10% hækkun eða 20% hækkun, ekki 30% hækkun, það er 36% hækkun frá því sem nú er og ég, satt að segja, skil ekki ólund hv. þm. yfir þessu.