Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 15:21:14 (2651)

2003-12-04 15:21:14# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigursson er yfirleitt heldur geðgóður maður. Það þekki ég en ég tek undir það að mér finnst hann heldur úrillur í þessari umræðu. Menn sjá ekki skóginn fyrir trjám í öryrkjamálinu svokallaða. Þar sjá menn ekki skóginn fyrir trjám.

Eins og fram hefur komið er þetta mesta framfaraskref fyrir öryrkja sem stigið hefur verið um árabil. Endurskoðunarákvæði eða stefnumörkun um endurskoðun á þessu máli er tilkomin vegna þess að réttindabaráttu öryrkja lýkur ekki. Við viljum einfaldlega hafa tækifæri til að ræða þetta mál áfram. Mér virðist sem menn horfi ekki á þetta út frá því frv. sem verður lagt fram á eftir, um að hækka laun yngstu öryrkjanna eða bætur þeirra úr 98.080 kr. í 126.547 kr.