Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 15:26:50 (2655)

2003-12-04 15:26:50# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004 kemur nú til lokaafgreiðslu við 3. umr. Í frumvarpinu með þeim breytingum sem gerðar voru við 2. umr. er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði um 275,3 milljarðar kr. Engar breytingartillögur liggja fyrir frá ríkisstjórn og meiri hluta nefndarinnar nú við 3. umr. þrátt fyrir að ljóst sé að útgjöld ríkissjóðs eru vanmetin á mörgum sviðum í frumvarpinu.

Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði um 282 milljarðar kr. Tekjuafgangur ríkissjóðs er því áætlaður um 6,7 milljarðar kr. Ef miðað er við fjárlög yfirstandandi árs hækkuðu útgjöld ríkissjóðs frá því sem samþykkt var í fjárlögum 2003 og því sem nú liggur fyrir við samþykkt fjáraukalaga um 6,7%. Ef miðað er við að það sama gerist á næsta ári má gera ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs fari í um 294 milljarða kr. á árinu 2004. Ljóst er því að ef gjöldin þróast eins á næsta ári og á þessu þurfa að koma til auknar tekjur af hálfu ríkissjóðs ef hann á að skila afgangi. Vísað er til nefndarálits 2. minni hluta við 2. umr. fjárlaga á þskj. 428.

Í mars árið 2003 gerðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og formaður Öryrkjabandalagsins samkomulag um hækkun grunnlífeyris öryrkja frá 1. janúar 2004. Í fréttatilkynningu frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, dags. 25. mars. 2003, sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Er með samkomulaginu komið sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, en gert er ráð fyrir allt að tvöfaldri hækkun grunnlífeyris til þeirra sem yngstir verða öryrkjar.``

Enn fremur kom fram í fréttatilkynningunni að samkvæmt útreikningum sérfræðinga heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins yrði kostnaðurinn við þessa hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytingar rúmur milljarður kr. á ári. Þessu samkomulagi var fagnað mjög og í grein í Morgunblaðinu 27. mars 2003 sagði heilbrigðis- og tryggingamála ráðherra m.a., með leyfi forseta:

,,Á blaðamannafundum í fyrradag var spurt hvort samkomulagið nú væri nokkuð annað en rétt og slétt kosningabomba. Ekkert er eðlilegra en fréttamenn spyrji spurninga af þessu tagi í aðdraganda kosninga. Það sem athyglisvert var á fundinum með blaðamönnum var að báðir aðilar, bæði sá sem þetta ritar og Garðar Sverrisson, formaður ÖBÍ, lýstu yfir að þannig bæri ekki að skilja niðurstöðuna og báðir sögðumst við sannfærðir um að enginn stjórnmálaflokkanna myndi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið.``

[15:30]

Já, virðulegi forseti, þessu samkomulagi var virkilega fagnað. Öryrkjar hafa barist fyrir auknum réttindum sínum, ekki hvað síst sá hópur sem hefur mátt búa við skerta starfsorku frá unga aldri. Enginn flokkur ýjaði að því að hérna væri bara um kosningaloforð að ræða, engin teikn voru um annað en að staðið yrði við samkomulagið þó svo að það væri gert undarlega stuttu fyrir kosningar þegar Framsfl. lá sem allra lægst í skoðanakönnunum.

Samkvæmt samkomulaginu hefur starfshópur nú unnið að tillögum að lagabreytingum og nánari útfærslu á framkvæmdinni þannig að hægt yrði að standa að greiðslum samkvæmt þessari ákvörðun frá 1. janúar 2004. Á aðalfundi Öryrkjabandalagsins í október sl. kom fram í máli formanns bandalagsins, sem jafnframt á sæti í umræddri nefnd, að um 1,5 milljarða kr. þyrfti á fjárlögum næsta árs til að fullnusta þetta tímamótasamkomulag ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 2004, eins og það liggur fyrir nú við 3. umr., er einungis gert ráð fyrir 1 milljarði kr. Ljóst er því að ekki á að standa að fullu við það samkomulag sem gert var við Öryrkjabandalagið rétt fyrir kosningar.

Mikil umræða hefur orðið um þá ætlan ríkisstjórnarinnar að standa ekki að fullu við það samkomulag sem gert var við Öryrkjabandalagið. Svo virðist sem fjmrh. og heilbr.- og trmrh. greini á um hvað samið var um. Fram hafa komið upplýsingar sem sýna að stjórnvöldum var ljóst þegar í vor að nærri 1,5 milljarða kr. þyrfti til að standa við samkomulagið. Fjmrh. telur hins vegar að samkomulagið sé fullefnt með 1 milljarði kr. en hæstv. heilbr.- og trmrh. viðurkenndi í umræðum á Alþingi nú fyrir skömmu að samkomulagið væri aðeins efnt að tveimur þriðju hlutum með þessari upphæð sem gert er ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2004.

Ég vil hér, með leyfi forseta, vitna í viðtal við hæstv. félmrh. sem birtist laugardaginn 29. nóv. í Morgunblaðinu, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, lítur svo á að standa beri við loforð um ,,allt að tvöföldun grunnlífeyrisins`` en þar sem í ljós hafi komið að kostnaðurinn sé meiri en ráð var fyrir gert verði að gera það í áföngum. Ráðherra tekur þó fram að aldrei hafi annað staðið til af sinni hálfu en að uppfylla samkomulagið að fullu. Sá milljarður, sem gert sé ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, verði greiddur út nú um áramótin en það sem upp á vanti verði greitt tólf mánuðum síðar.``

Virðulegi forseti. Enn fremur er föstudaginn 28. nóv. einnig vitnað í hæstv. heilbr.- og trmrh. samkvæmt fréttum Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

,,Þær upplýsingar sem ég hafði um kostnað vegna þessa á þessum tíma var að þetta myndi kosta milljarð og lagði ég það fyrir ríkisstjórnina. Nokkrum mánuðum seinna kemur svo í ljós að þetta sé þriðjungi dýrara en ég var búinn að fá samþykkt.``

Það er því alveg ljóst, virðulegi forseti, að hæstv. heilbrrh. var alveg ljóst að þetta samkomulag var nokkuð dýrara en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlagagerðinni, og þá þegar í vor. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það þó svo að samkomulagið sé gert og tekið fram að kostnaður sé áætlaður rúmur milljarður kr. og síðan við nánari skoðun reiknist það 1,5 milljarðar kr. Það er ekkert óeðlilegt við það og meðan menn voru á því stigi voru engin ósannindi í gangi.

Það liggur hins vegar skýrt fyrir að þegar samið var við Öryrkjabandalagið í vor var ekki kveðið á um áfangaskiptingu samkomulagsins. Í samkomulaginu er skýrt kveðið á um að það eigi að koma til framkvæmda 1. janúar 2004 en ekki síðar. Heilbr.- og trmrh. verður að standa að fullu við það samkomulag sem hann gerði. Eða ætlar hann að vera sá sem stendur í vegi fyrir að staðið verði við samkomulagið eða, eins og hann orðaði það í áðurnefndri grein, ,,rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið``? Alvarlegast er þó að nú hyggst ríkisstjórnin ganga á bak þeirra orða sinna í samkomulaginu með því að staðfesta einhliða með lögum að þessi réttarbót nái aðeins til hluta þeirra öryrkja sem samið var um.

Sá sem hér talar flytur brtt. nú við 3. umr. þar sem lagt er til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um 500 millj. kr. svo að hægt verði að standa að fullu við samkomulag heilbr.- og trmrh. við Öryrkjabandalagið frá því í vor. Þessa sömu tillögu flutti ég við 2. umr. fjárlagafrv. þegar ég hóf þessa umræðu um að ekki stæði til að efna samninginn við Öryrkjabandalagið. Ég flutti þá tillögu við 2. umr. en ákvað að draga hana til baka þá og flytja hana hér aftur við 3. umr. ef meiri hlutinn og ríkisstjórnin væru ekki búin að gera nauðsynlegar breytingar á frv. til þess að hægt væri að fullnusta samkomulagið. Því flyt ég þessa tillögu hér aftur um að veittar verði 500 millj. kr. til viðbótar til að hægt sé að standa að fullu við það samkomulag sem heilbr.- og trmrh. gerði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Öryrkjabandalgið í vor rétt fyrir kosningar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð skorar á alla þingmenn að styðja þetta mál. Jafnframt er skorað á heilbr.- og trmrh. að styðja það að staðið verði að fullu við það samkomulag sem hann gerði.

Ég tek alveg undir þau orð sem hafa fallið í umræðunni um að áfangi upp á einn milljarð kr. sé vissulega spor í áttina. Það gætu verið rök fyrir því að taka yrði á málinu í tveimur áföngum þó svo að samið hefði verið um annað. En það að ætla að víkja sér undan því að standa við samkomulagið eins og gert hafði verið ráð fyrir og skrifað hafði verið undir eru svik.

Nauðsynlegt er að styrkja betur heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir um allt land. Í umræðunni í fjárln. hefur komið berlega í ljós hversu mikil fjárvöntun er hjá heilbrigðis- og sjúkrastofnunum víða um land, ekki aðeins hér á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig alls staðar á landsbyggðinni. Fjárþörf Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er stórlega vanmetin hér við fjárlagagerðina og heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir utan Reykjavíkur líða fyrir fjárskort. Sérstök þörf er á að fjölga enn frekar hjúkrunarrýmum við öldrunarstofnanir um allt land en með hækkandi aldri og bættri heimahjúkrun eykst sú þörf hlutfallslega. Á þetta hafa sveitarfélög sem komið hafa á fund fjárln. rækilega bent og fulltrúar þeirra öldrunarstofnana sem reknar eru víða um landið hafa líka bent á þessa gríðarlegu þörf til að viðurkenna og koma með fjármagn til aukins fjölda hjúkrunarrýma. Við þessu er ekki nema að litlu leyti orðið. Það er mikilvægt að heilsugæslustöðvar og sjúkrahús á landsbyggðinni haldi hlut sínum og geti veitt fjölbreytta og staðbundna þjónustu.

Sú stefna er röng að skerða stöðugt verkefni og þjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og auka þannig óöryggi íbúanna, kostnað þeirra og óþægindi sem þeir hafa af því að sækja læknisþjónustu langt að. Það var mikið óheillaspor að leggja niður stjórnir sjúkrahúsanna á landsbyggðinni og slíta þar með á tengsl þeirra við heimafólk og íbúana sem vilja standa vörð um þessa þjónustu og standa henni næst. Skerðing á þjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni leiðir til aukins álags á hátæknisjúkrahúsunum á Akureyri og í Reykjavík.

Í frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 og breytingum frá ríkisstjórn og meiri hlutanum við 2. umr. er gert ráð fyrir að útgjöld Landspítala -- háskólasjúkrahúss umfram sértekjur verði tæpir 24,8 milljarðar kr. Forstjóri Landspítala -- háskólasjúkrahúss kom á fund fjárln. eftir 1. umr. um frv. Hann telur að spítalinn þurfi 1,4 milljarða kr. til viðbótar við þá fjárheimild sem frv. gerir ráð fyrir miðað við óbreytta starfsemi árið 2004. Við þessari beiðni hefur meiri hlutinn ekki orðið. Af þessu má ljóst vera, þar sem ekki er gert ráð fyrir frekari fjárveitingu til spítalans á næsta ári, að annaðhvort þarf að draga úr þjónustu eða spítalinn verður rekinn með halla sem síðan verður að gera upp í fjáraukalögum næsta árs.

Ég vakti athygli á því fyrr í dag í andsvari við hv. formann fjárln. hvernig Landspítali -- háskólasjúkrahús er að búa sig undir að bregðast við, að hann sé neyddur til þess að skera niður þjónustu á ákveðnum sviðum ef honum á að takast að halda sér innan þessa fjárlagaramma. Er það það sem við viljum? Ég held að við viljum öll að heilbrigðisþjónustan, heilsugæslan og læknisþjónustan sé sem öruggust og eigi ekki að vera skipulagslaust skorin niður.

Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík kemur m.a. fram að sameiningin hafi ekki verið nógu markvisst undirbúin. Hvorki hafi verið gerð tímasett framkvæmda- eða kostnaðaráætlun né sett markmið um það hverju ætti að ná fram með sameiningunni. Í mati á afköstum fyrir og eftir sameiningu verði ekki komist nær en að umfang þjónustu sé óbreytt og ekki hefði tekist að auka afköst sjúkrahússins. Enn fremur kemur fram að fyrirliggjandi upplýsingar gefi ekki til kynna að bið eftir þjónustu hafi almennt styst. Af skýrslunni virðist því mega draga þá ályktun að sameining sjúkrastofnana þýði ekki endilega bætta og/eða aukna þjónustu. Ofurtrú þessarar ríkisstjórnar á að sameiningar þjónustustofnana og stærð eininga ráði öllu um gæði þjónustu og rekstrarhagkvæmni fær enn eina falleinkunn með þessari skýrslu.

Í frv. er gert ráð fyrir að útgjöld Háskóla Íslands umfram sértekjur verði um 4,5 milljarðar kr. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að skólinn fái framlag fyrir 5.200 ársnemendur. Á fundi sem fulltrúar Háskóla Íslands áttu með fjárln. var lögð fram spá um fjölgun ársnemenda 2004--2007. Talið er að þeir verði 5.750 á næsta ári en ekki 5.200 eins og gert er ráð fyrir í frv. Að óbreyttu mun Háskóli Íslands þurfa að vísa frá 900 nýnemum haustið 2004. Samkvæmt því mun Háskóli Íslands ekki lengur verða þjóðskóli, heldur skóli sem takmarkar aðgang. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mótmælir því að aðgangur að skólanum verði takmarkaður.

Enn fremur lögðu fulltrúar Háskóla Íslands fram samanburð á framlagi til kennslu í lagadeild Háskóla Íslands annars vegar og í lagadeild Háskólans í Reykjavík hins vegar. Ráðstöfunarfé til kennslu virks laganema samkvæmt því er um 346 þús. kr. í Háskóla Íslands en um 530 þús. kr. í Háskólanum í Reykjavík. Mismunurinn er því um 184 þús. kr. eða um 53%. Vandi Háskólans á Akureyri og Kennaraháskólans er hliðstæður. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu flytja brtt. sem ætlað er að leiðrétta bráðavanda þessara skóla.

Í DV 3. des. sl. kemur fram að sérfræðingar á fjármálamarkaði hafa áhyggjur af því hvort Seðlabanki Íslands nái að standa vörð um verðbólgumarkmiðin. Þeir benda á að verðbólguspá bankans sé of lág og vanmetnar séu vísbendingar í hagkerfinu sem gefa til kynna að verðhækkanir séu í þann mund að fara á skrið. Ljóst er að mikið liggur við að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist. Kjarasamningar byggjast meðal annars á því að svo fari.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var viðskiptahallinn 32,3 milljarðar kr. fyrstu níu mánuði ársins 2003 en 2,1 milljarður kr. á sama tíma 2002. Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka virðist því flest benda til þess nú að viðskiptahallinn verði meira en 4% af landsframleiðslu í ár en í fyrra var 0,6% afgangur. Landsbankinn telur að viðskiptahallinn verði 35--40 milljarðar kr. á þessu ári. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að hallinn verði einungis 2,5% af landsframleiðslu í ár. Í lok september sl. hafði hrein skuldastaða þjóðarbúsins hækkað um 24 milljarða kr. frá árslokum 2002. Fram kemur hjá greiningardeild Íslandsbanka að viðsnúningurinn væri lítið áhyggjuefni ef hann væri kominn til alfarið eða að mestu vegna þess að fjárfestingar hefðu aukist samhliða því að stóriðjuframkvæmdir hafa farið af stað. Samkvæmt bankanum er viðsnúningurinn þó ekki nema að litlum hluta til kominn vegna aukins innflutnings af fjárfestingarvörum. Að mestu má skýra aukinn halla með því að innlend neysla hafi tekið við sér og útflutningur hafi átt undir högg að sækja. Enn fremur kemur fram hjá greiningardeild Íslandsbanka að þróun viðskiptajafnaðarins undanfarið bendi til þess að krónan sé orðin öllu verðmeiri en hún getur orðið til lengdar --- gengið samræmist ekki langtímajafnvægi þjóðarbúsins. Ef allt væri með felldu væri nú að hefjast hóflegt hagvaxtarskeið sem skapaði grundvöll fyrir fjölbreytt atvinnulíf og jarðveg fyrir nýja vaxtarsprota.

[15:45]

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar stefnir þjóðfélaginu í aðra átt. Ráðist er í framkvæmdir sem eru allt of viðamiklar fyrir íslenskt efnahagslíf og gríðarleg fórn á náttúruauðlindum. Ruðningsáhrif þessara stórframkvæmda eru þegar farin að hafa mjög neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu annars atvinnulífs í landinu.

Með stefnu þessarar ríkisstjórnar í atvinnumálum verður heilu atvinnugreinunum, búsetu í mörgum byggðarlögum, eðlilegum vexti og stöðugleika í efnahagsmálum stefnt í mikla tvísýnu á næstu árum.

Virðulegi forseti. Ég vil þá víkja að nokkrum atriðum í fjárlagafrv. sem hér á að fara að samþykkja. Ég vil sérstaklega víkja að þeirri ákvörðun að verja sérstöku fjármagni til stofnunar framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Það hefur verið baráttumál undanfarin ár að stofnaður yrði framhaldsskóli á Snæfellsnesi og það mál hefur verið borið fram mjög kröftuglega og sameiginlega af sveitarfélögum á norðanverðu Snæfellsnesi.

Ég lagði þunga áherslu á það við afgreiðslu fjárlaga í fyrra að þessi ákvörðun yrði tekin og að lokum lýsti þáv. hæstv. menntmrh. því yfir að veitt yrði fjármagn til undirbúnings. Og á fjárlögum þessa árs er svo veitt byrjunarfjárveiting til þess að skólinn megi formlega taka til starfa næsta haust. Þetta er fagnaðarefni sem ég vil árétta hér og koma á framfæri.

Það eru líka önnur atriði sem ég vil inna eftir. Boðaður var niðurskurður um milljarð kr. í vegaframkvæmdum en engar tillögur, engar upplýsingar liggja fyrir hvar sá niðurskurður á að koma niður. Í vor barði hæstv. ríkisstjórn sér á brjóst og lagði til aukið fé til samgöngumála, til átaks í vegamálum. Sá sem hér stendur studdi það átak. Þá var jafnframt boðað að þetta væri einn mikilvægasti málaflokkurinn sem þyrfti að taka á til þess að efla og styrkja atvinnulíf og búsetu vítt og breitt um landið. Það skýtur því rækilega skökku við, nokkrum mánuðum eftir að þessi ákvörðun var tekin, að nú er vegáætlun aftur skorin niður. Svona handarbakavinna, svona blekkingarleikur er ekki trúverðugur, virðulegi forseti, og ekki síst þegar hvergi fylgir með greinargerð eða skýring hvar þessi niðurskurður á að koma niður, hvaða framkvæmdir sem nú eru á vegáætlun á að skera niður. Mér finnst að þær upplýsingar eigi að liggja fyrir og kannski getur hæstv. samgrh. upplýst okkur um það hér hvað á skera niður í samgöngumálum áður en við ljúkum afgreiðslu fjárlaga.

Ég vil einnig vekja athygli á gríðarlega erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, en tekjur þeirra hrökkva engan veginn til þeirra skylduverkefna sem þeim hafa verið falin. Stöðugt hafa verið færð aukin verkefni til sveitarfélaganna frá ríkinu án þess að þeim fylgdu nægir tekjustofnar. Við það bætist og að mörg sveitarfélög verða nú fyrir tekjutapi vegna þess að laun íbúanna lækka. Þetta á sér t.d. stað í sjávarþorpum vítt og breitt um landið þar sem fiskverð hefur farið lækkandi og þar á meðal líka laun sjómanna. Allt þetta hefur bein áhrif á tekjur sveitarfélaganna. Einu úrlausnirnar sem sveitarfélögin hafa eru þá annaðhvort að skera kröftuglega niður þjónustuna eða að selja eignir. Sum sveitarfélög hafa fundið sig knúin til þess að selja sínar dýrustu þjónustueignir, rafveitu hér, hitaveitu þar o.s.frv. En eignir verða aldrei seldar nema einu sinni og hafi sveitarfélag selt frá sér þjónustueignir sínar þá stendur það auk þess slyppara eftir.

Það verður að taka á fjárhagsvanda sveitarfélaganna og þeirri röngu tekjuskiptingu sem er á milli ríkis og sveitarfélaganna. Það er ekki réttlátt að ætla að láta það bíða einhverrar umræðu um endurskoðun á stærð sveitarfélaganna, sameiningu sveitarfélaga. Það er allt annar hlutur sem verður að fara í gang og vinnast á eigin forsendum. Og það er afar óréttlátt að ætla að láta sveitarfélögin svelta, veita þeim ekki úrlausn en pína þau inn í einhverjar sameiningarviðræður sem óvíst er til hvers leiða eða hvernig ganga fyrir sig. Það að sameina sveitarfélög leiðir ekki til aukinna tekna innan sveitarfélaganna, fjarri því, og reynslan er sú að svo er ekki. Hins vegar getur verið hagræði í því í mörgum tilvikum en það er engin töfralausn til þess að auka tekjur í sveitarfélögum. Ég vil leggja þunga áherslu á það, virðulegi forseti, að á meðan ríkissjóður getur afgreitt fjárlög með tekjuafgangi þá eru sveitarfélögin, hinn aðilinn sem stendur undir þjónustu í landinu, nærþjónustu við íbúana hafður í fjársvelti hvað tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga varðar. Þessu verður að breyta.

Það eru mörg atriði sem þetta fjárlagafrv. tekur ekki á. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjum áherslu á að ríkisfjármálunum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna aukins tekjumunar í þjóðfélaginu og kerfisbundinnar mismununar á lífskjörum fólks. Það er skilyrði að öllum þegnum þjóðfélagsins séu tryggð mannsæmandi lífskjör og það á að vera aðalsmerki hins samábyrga velferðarsamfélags. Öll mismunun á lífskjörum leiðir til hættulegrar spennu og þenslu í þjóðfélaginu sem og röskunar fjölskyldubanda, byggðar og atvinnulífs. Gegn þessu ójafnvægi verður að berjast með öllum tiltækum ráðum.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggja til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna og að framlög til umhverfismála verði aukin og tekið verði upp grænt bókhald þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mótmælir því að aðhald í útgjöldum skuli bitna mest á þeim sem síst skyldi; barnafólki, sjúklingum, öryrkjum, atvinnulausum og þeim sem hafa lægstar tekjur. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mótmælir því að þessir hópar eigi að borga brúsann til að viðhalda stöðugleikanum.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. sem nú situr, situr í skjóli svikinna kosningaloforða. Lofað var tugmilljarða skattalækkunum, 90% húsnæðislánum, línuívilnun til bátaflotans og jarðgöngum, svo nokkuð sé nefnt.

Einmitt í dag var að koma yfirlýsing eða fréttatilkynning frá stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi sem mótmælir því harðlega að ekki skuli hafa verið staðið við gefin loforð og tryggðir fjármunir á fjárlögum til viðbyggingar við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi sem hýsi starfsemi sem nú er á Ljósheimum á Selfossi. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi telur að fyrir kosningar í vor hafi verið lofað að þarna yrði ráðist í meiri framkvæmdir en efndir nú standa til og sendi frá sér harðorð mótmæli gagnvart þeim vinnubrögðum. Ábyrgir stjórnmálaflokkar eiga ekki að lofa meiru en þeir geta staðið við.

Skerðing á rétti atvinnulausra og hækkun á komugjöldum og hlut sjúklinga í lyfjakostnaði voru ekki meðal kosningaloforða Framsfl. í vor. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð skorar á stjórnarflokkanna að standa a.m.k. við eitt kosningaloforðið, en það er að efna að fullu það samkomulag sem gert var við Öryrkjabandalagið síðasta vetur.

Virðulegi forseti. Ég flyt tvær brtt. við frv. til fjárlaga hér við 3. umr. Í fyrsta lagi eins og ég hef gert grein fyrir áður í ræðu minni að örorkulífeyrir verði hækkaður um 500 millj. kr. Í greinargerð með þessari tillögu segir, með leyfi forseta:

,,Hér er gerð tillaga um að staðið verði við samkomulag sem gert var á milli ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins um aukinn lífeyri til þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni og koma á til framkvæmda 1. janúar 2004. Fjárhæð þessi er til viðbótar 1.000 millj. kr. sem eru í frumvarpinu en komið hefur í ljós að til þess að standa við samkomulagið þarf 1.500 millj. kr.``

Í öðru lagi flyt ég tillögu ásamt hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni um Háskóla Vestfjarða á Ísafirði, en þar segir í greinargerð:

,,Umfangsmikið símenntunar- og háskólastarf er nú í uppbyggingu á Ísafirði og vinnur Fræðslumiðstöð Vestfjarða, ásamt öðrum heimaaðilum, gott brautryðjendastarf. Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Kennaraháskólinn hafa unnið ötullega að því að bjóða fram háskólanám með fjarkennslu.

Á Ísafirði eru miklir möguleikar til að mynda sterka kennslustofnun sem mótar sérstöðu sína á grundvelli atvinnulífs og framtíðarmöguleika svæðisins. Hún tekur jafnframt að sér og stýrir rannsóknum, vöktun og nýtingu á fjölbreyttum náttúruauðlindum Vestfjarða og hafinu umhverfis. Miðstöð veiðarfærarannsókna og kennsla í gerð og notkun veiðarfæra væri vel staðsett á Ísafirði svo dæmi sé nefnt. Reynslan hefur sýnt að litlar stofnanir í sterkum og nánum tengslum við auðlindir, atvinnulíf og menningu heimahéraðs geta orðið öflugar ef þær fá til þess sjálfræði og stuðning. Hér er lagt til að veita 15 millj. kr. til að vinna að stofnun Háskóla Vestfjarða á Ísafirði.``

Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir nál. 2. minni hluta efh.- og viðskn. við 3. umr. fjárlaga.