Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 15:58:35 (2657)

2003-12-04 15:58:35# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson ætti tala um þetta mál í auðmýkri tón. Vissulega er það fagnaðarefni að ákveðinn áfangi hefur náðst í að rétta og bæta hag öryrkja og sérstaklega þeirra sem hafa orðið öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Ég tel að þeir aðilar sem stóðu að því samkomulagi hafi vissulega unnið afar þarft og gott verk sem þjóðin gleðst yfir. Hitt er svo annað mál að það þarf líka að efna það samkomulag sem gert er, alla vega að viðurkenna það á heiðarlegan hátt að það hafi ekki tekist í þessari atrennu en það verði þá gert síðar. Það þýðir ekki að vitna hér í eitthvert frv. sem ekki er komið fram. En það er alveg ljóst og ég vitna í orð hæstv. heilbrrh. að ráðherrann hefði líka viljað sjá það gert.