Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 16:02:06 (2660)

2003-12-04 16:02:06# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil gera að umræðuefni þá brtt. sem Jón Bjarnason hefur einn lagt fram við frv. til fjárlaga fyrir árið 2004. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hér er gerð tillaga um að staðið verði við samkomulag sem gert var á milli ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins um aukinn lífeyri til þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni og koma á til framkvæmda 1. janúar 2004.``

Með því frv. sem mun liggja hér frammi í dag verður grunnlífeyrir yngstu öryrkjanna tvöfaldaður, það er því verið að standa við samkomulagið. Ég hvet hv. þm. til að kynna sér málefnið betur því að það er einmitt verið að koma mest til móts við þá sem verða öryrkjar á unga aldri. Þetta ætti hv. þm. Jón Bjarnason að vita því allir aðrir í þessum sal vita þetta enda stendur hann einn að þessari brtt.