Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 16:11:49 (2668)

2003-12-04 16:11:49# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ákveðin árátta sem mér sýnist vera í málflutningi stjórnarandsstöðunnar. (Gripið fram í: Ekki blanda okkur saman.) Það kemur kannski hvað skýrast fram í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Jón fer að vanda að ræða heilbrigðismálin, segir: Það er stórkostleg skerðing á heilbrigðismálum á landsbyggðinni, stórkostleg skerðing á framlagi til heilbrigðismála.

Hér er ég með frumvarpið. Þetta eru 38 blaðsíður, gríðarleg talnaruna upp á 110 milljarða kr. Mikið þætti mér vænt um það ef hv. þm. vildi vera svo vænn að benda á, þó að það væri ekki nema ein tala af allri þessari talnaröð sem passaði við hans talnarugl. Ég er bara að biðja um eina tölu sem sýnir að það sé skerðing til landsbyggðarinnar.