Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:08:50 (2681)

2003-12-04 18:08:50# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég vil árétta beiðni mína um að hæstv. ráðherra láti ljósrita ræðu sína þannig að við getum haldið áfram umræðum við 3. umr. fjárlaga á grundvelli staðreynda. En allt að einu.

Ég er þeirrar skoðunar almennt eftir því sem ég hlýddi á mál ráðherrans að það eigi nú að freista þess, ef nauðsyn er á að fresta framkvæmdum, að taka þá út hinar stærri framkvæmdir og ýta þeim aðeins fram í tímann í stað þess að kroppa af allt of mörgum og eiga það á hættu að framkvæmdatíminn verði allt of langur. Þess vegna var ég nú að spyrja um þessi tvo þætti, um Reykjanesbraut innan Suðvesturkjördæmis, milli Kópavogs og Hafnarfjarðar, og hins vegar Vesturlandsveginn milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, hvort þetta þýddi það að teygja þyrfti á framkvæmdatíma, því að yfirstandandi framkvæmdir á álagspunktum í umferðinni eru auðvitað til baga og til erfiðleika og skapa slysahættu.

Þess vegna vil ég árétta það og spyrja: Mun þessi frestun tefja og teygja óþarflega á framkvæmdatíma?