Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:11:07 (2683)

2003-12-04 18:11:07# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ótrúlegur lestur í sjálfu sér. Það virðist ekki hafa þurft alla þessa peninga sem um var að ræða því hægt var að halda áfram á fullri ferð við framkvæmdirnar sem um var að ræða þó að þær væru skornar niður í mörgum af þessum tilfellum. Það er eiginlega varla hægt að sleppa því að nefna það að ekki eru liðnir nema um það bil átta eða níu mánuðir og varla það síðan menn tóku ákvörðun um að auka vegaframkvæmdir um á milli 4 og 5 milljarða, sem var svo ekki hægt að gera. Nú er bara kominn niðurskurður og það er meira og minna af því að ekki hefur verið hægt að koma verkum af stað, þau hafa ekki verið tilbúin o.s.frv.

Ég verð að segja að mér finnst þetta benda til þess að taka þurfi til í því hvernig farið er að undirbúningnum og hæstv. ráðherra þurfi kannski að skoða svolítið betur hvernig mál eru undirbúin í ráðuneytinu ef þessar skýringar eru haldbærar sem hann var hér með um þetta. Þetta er hins vegar enn eitt dæmið (Forseti hringir.) um þær hundakúnstir sem hafa verið hér í vegamálum.