Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:16:03 (2687)

2003-12-04 18:16:03# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er þessi lækkun á framlögum til vegamála einungis lítill hluti af heildarfjárveitingum til vegagerðar. Ég minni nú á að framkvæmdir við vegagerð eru meiri á þessu ári en nokkru sinni áður hefur verið. Við erum með mikil og stór verk í gangi eftir sem áður þó að við þurfum að hægja á.

Það er hárrétt sem kom fram hjá þingmanninum að samgn. fær þessar tillögur að sjálfsögðu til umfjöllunar. Þetta eru tillögur sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa fjallað um og öllum er ljóst að hverju er stefnt. Samgn. fær þessar tilögur til meðferðar á nýju ári þegar endurskoðun hefst á samgönguáætluninni.

Ég taldi nauðsynlegt að við þessa umræðu fengju menn upplýsingar um þessi áform. En ég undirstrika að þarna er fyrst og fremst verið að taka tillit til aðstæðna í verkum sem ekki er hægt í raun að setja af stað og eyða þeim fjármunum sem til ráðstöfunar voru.