Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:17:24 (2688)

2003-12-04 18:17:24# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Ég fagna því að þetta fari til þinglegrar meðferðar í samgn., að þetta sé bara tillaga sem lögð er hérna fram og fagna því reyndar líka að hæstv. ráðherra skuli bera hana fram inn í þingið.

Hins vegar verð ég að láta í ljós mikil vonbrigði með að landshlutar eins og Vestfirðir og norðausturhornið, sem lögð var sérstök áhersla á í vor að fengju auknar fjárveitingar og að þar yrði aukið átak í vegamálum, skuli einmitt núna lenda undir hnífnum og þar skuli skorið niður. Það er í fullkomnu ósamræmi við þær áherslur sem lagðar voru upp í vor.

Einnig vil ég benda á að sumir vegir, safnvegir eða tengivegir sem þarna er um að ræða, fá kannski allt fjármagnið sem varið er til þessara vegaflokka á stórum landsvæðum. Ég nefni Vatnsdalsveg. Ég nefni Drangsnesveg. Mér finnst því að huga þurfi vel að því hvernig þetta kemur niður bæði hvað varðar væntingar fólks og einnig verklegar framkvæmdir.