Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:19:57 (2690)

2003-12-04 18:19:57# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:19]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að fagna því að hæstv. samgrh. skuli koma með þetta yfirlit um frestun framkvæmda á næsta ári. Það er búið að leita eftir þessu nokkrum sinnum í fjárln. og okkur hefur verið tjáð að þetta væri ekki tilbúið. Því er fagnaðarefni að það skuli koma áður en við ljúkum umræðum um fjárlög.

Það vekur sérstaka athygli að hér er verið að fresta ýmsum framkvæmdum sem fyrr á þessu ári voru í hópi flýtiframkvæmda. Mér sýnist að ýmsar flýtiframkvæmdir séu nú orðnar frestunarframkvæmdir. Mig langaði þess vegna til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi yfirlit yfir hlutfall þarna á milli, þ.e. hversu hátt hlutfall af hinum svokölluðu flýtiframkvæmdum verða frestunarframkvæmdir á næsta ári. Ég tek eftir ástæðunni fyrir þessu, þ.e. að umhverfismatið er tímafrekara en gert hefur verið ráð fyrir. En það áttu menn að vita þegar þeir ákváðu þessar flýtiframkvæmdir. Það væri fróðlegt að fá að heyra um hlutfall þarna á milli, hvað mikið sem sagt af flýtiframkvæmdum verða frestunarframkvæmdir á næsta ári.