Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:27:00 (2695)

2003-12-04 18:27:00# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég vil fá að nota tækifærið í upphafi og fagna tillögu sem hv. þm. Gunnar Birgisson gerði grein fyrir rétt áðan um breytingar á heiðurslaunum Alþingis. Ég vil að öðru leyti í upphafi máls míns segja um fram komið fjárlagafrv. að þar er margt góðra tíðinda. Fjárlagafrv. lítur að ýmsu leyti vel út enda er staðan sú að ef vel er haldið á spilunum er bjart fram undan í efnahagsmálum. En eftir að hafa kynnst því sem nýliði í þinginu hvernig fjárlagafrv. er þegar til framkvæmdar kemur, séð fjáraukalög upp á eina 17 milljarða, síðan enn meiri viðbætur í ríkisreikningum og síðan lokafjárlögum allt upp í 35 þús. millj. kr. frávik frá frv. og til lokaniðurstöðu þá hefur maður vissulega áhyggjur af því að þó að frv. kunni að líta ágætlega út þá muni það ekki reynast halda í veruleikanum. Þess vegna er full ástæða til að leggja áherslu á að allt verði gert sem hægt er til þess að tryggja að áform þess gangi eftir og aðhalds verði gætt í framkvæmd fjárlaganna og fjárln. sinni því í ríkari mæli á næsta ári en gert hefur verið á undanförnum árum að fylgja því eftir fyrir hönd þingsins.

Við 3. umr. fjárlaganna eru ekki breytingartillögur frá meiri hluta fjárln. þannig að frv. er í rauninni óbreytt frá 2. umr. Þess vegna er út af fyrir sig ekki margt við þá umræðu að bæta umfram það sem fram hefur komið í ræðum framsögumanna minni og meiri hluta í dag. Þó flytjum við fulltrúar Samfylkingarinnar tvær lítils háttar breytingartillögur sem ekki voru fluttar við 2. umr. Aðra þeirra boðuðum við þá þegar. Hún varðar fjárlagalið 02-211 Tækniháskóla Íslands. Þar er um að ræða 21 millj. kr. framlag vegna nemenda sem þeir hafa þegar fengið samþykkta en fá ekki fjárveitingar fyrir. Þetta er í sama anda og breytingartillögur okkar við liði 02-201, 02-210 og 02-215, þ.e. Háskóla Íslands, Kennaraháskólann og Háskólann á Akureyri.

Þess utan er breytingartillaga við fjárlagaliðinn 02-451 sem lýtur að símenntun og fjarkennslu. Þar er um að ræða 50 millj. kr. fjárveitingu vegna kostnaðarauka símenntunarmiðstöðvanna og fjarkennslunnar við hið svokallaða FS-net sem þær hafa í engu fengið bættan og mun þá rýra kost þeirra að sama skapi á næsta ári ef þessi tillaga nær ekki fram að ganga.

[18:30]

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem ég hafði einkum hugsað mér að mæla fyrir og ræða nokkuð er tillaga sem ég er 1. flm. að ásamt hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur, hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, hv. þm. Jóni Gunnarssyni og hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Sú tillaga er um að liður 08-204 Lífeyristryggingar, 1.15 Örorkulífeyrir, hækki um 528,8 millj. kr. frá því sem er í frv. og er flutt til þess að aðstoða hæstv. ríkisstjórn við að efna þann kjarasamning sem ríkisstjórnin gerði við Öryrkjabandalag Íslands, hæstv. heilbrrh. fyrir hennar hönd hinn 25. mars sl. og vænti ég þess að hæstv. heilbrrh. (Gripið fram í: Hann er kominn.) --- já, það er gott að sjá hæstv. heilbrrh. og ég þakka honum fyrir að vera viðstaddan til að heyra mál mitt.

Þessi samningur Öryrkjabandalagsins og ríkisstjórnarinnar hefur verið mjög til umræðu að undanförnu og full ástæða til þess að gera honum nokkuð ítarleg skil og fá svör við spurningum frá hæstv. heilbrrh. Ég hef í ræðustól Alþingis hrósað hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórninni sérstaklega fyrir að hafa gert þann samning sem gerður var þann 25. mars sl. og átti ekki von á öðru en að sá samningur yrði uppfylltur í fjárlagafrv. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram var þegar ljóst að það var vanáætlað í fjárlagafrv. fyrir kostnaði af samningnum við Öryrkjabandalagið. Þar voru aðeins áætlaðar 1.000 millj. kr. en vitað var að kostnaðurinn við samkomulagið nam 1.500 millj. kr. Ég átti aldrei von á öðru en að þær viðbætur kæmu inn við 2. umr. eða í síðasta lagi við 3. umr. Þegar þær höfðu ekki komið fram fyrir 2. umr. spurði ég í síðustu viku hæstv. heilbrrh. hvort það væri ekki alveg öruggt að hér kæmi inn tillaga um liðlega 500 millj. kr. viðbót vegna samningsins enda lægi fyrir að hann kostaði meira en 1.000 millj. kr. Þá upplýsti hæstv. heilbrrh. í andsvari að það væri vissulega rétt að samningurinn kostaði meira en 1.000 millj. kr., samningurinn kostaði liðlega 1.500 millj. kr. en hann hefði ekki heimildir til að uppfylla samninginn á næsta ári og vantaði upp á það 500 millj. kr. Þess vegna hygðist hann efna 2/3 hluta samningsins 1. janúar nk. en síðari helminginn, eða 500 millj. kr., 1. janúar 2005. Þannig hygðist heilbrrh. bregðast við þeim vinda að hann fengi ekki fjárheimildir til að efna samninginn, að hann ætlaði að efna hann í tveimur hlutum, síðari hlutann 1. janúar 2005.

Á þeim skamma tíma sem er liðinn síðan, hefur atburðarásin verið að mörgu leyti afar einkennileg. Nú er staðan sú að því hefur verið lýst yfir að ekki einu sinni þetta eigi að efna, ekki einu sinni þessa vikugömlu yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. Jóns Kristjánssonar um að hann ætlaði að koma með samningsupphæðina, liðlega 1.500 millj. kr., í tveimur áföngum. Viku síðar stendur ekki einu sinni sú yfirlýsing, þá er jafnvel sú yfirlýsing hæstv. heilbrrh. ómark, ekkert annað en ómark vegna þess að hæstv. heilbrrh. ætlar ekki einu sinni samkvæmt þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið að efna samninginn í tveimur áföngum.

Nú kveður við nýjan tón. Nú kveður við þann tón að samningurinn hafi bara verið um 1.000 millj. kr. þó að hæstv. heilbrrh. hafi sagt í síðustu viku í ræðustólnum að kostnaðurinn við samninginn væri 1.500 millj. kr. Það er augljóst að hæstv. heilbrrh. er að ganga á bak orða sinna og svíkja þann samning sem gerður var 25. mars sl.

Sumir hv. þm. hafa komið í ræðustólinn og sagt að hér sé nú vel gert við öryrkja og hér sé verið að hækka um mörg prósent og menn skuli bara þakka fyrir það. En hæstv. forseti. Það voru ekki prósenturnar í hækkunum til öryrkja sem réðu því að hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórn Íslands gerðu kjarasamninginn við öryrkja í landinu. Það voru prósentur Framsfl. sem réðu því að hæstv. heilbrrh. varð fyrst sérlega áhugasamur um þennan samning þegar fylgi Framsfl. var komið niður í rétt um 8% í skoðanakönnunum. Það var ekki af neinu sérstöku örlæti við öryrkja sem Framsfl. hljóp þá til og gerði samning við Öryrkjabandalagið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um verulegar kjarabætur. Nei, það var þegar hæstv. heilbrrh. og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, sem því miður er hér fjarri, voru að róa lífróður fyrir kosningar. Þá gerðu þeir samning 25. mars sl. við Öryrkjabandalagið og samningurinn var um það að tvöfalda grunnlífeyri þeirra sem verða öryrkjar 18 ára eða yngri og síðan lækkaði sú tvöföldun um 421 kr. á ári þar til 67 ára aldri er náð. Nákvæmlega um þetta var samið og nákvæmlega þetta var handsalað og nákvæmlega þetta kynnti hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson á blaðamannafundi í sjálfu Þjóðmenningarhúsinu að viðstöddum embættismönnum og gerðu blaðamönnum grein fyrir þessu samkomulagi. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 21. mars sl. er nákvæmlega þessi útfærsla tilgreind. Það er tilgreint að það eigi að tvöfalda hjá þeim sem verða öryrkjar 18 ára eða yngri og síðan eigi það að lækka um 421 kr. á ári.

Í Morgunblaðinu 26. mars gerir blað allra landsmanna skýra grein fyrir hinum mikla samningi ríkisstjórnarinnar við Öryrkjabandalag Íslands. Þar er nákvæmlega hið sama tilgreint, að tvöfalda eigi grunnlífeyri þeirra sem verða öryrkjar 18 ára eða yngri, þ.e. um 20.600 kr. og síðan eigi það að lækka um 421 kr. á ári. Og Morgunblaðið skýrir lesendum sínum. m.a. úr röðum þeirra öryrkja sem í hlut eiga, nákvæmlega frá því hvað þetta þýðir og gerir m.a. grein fyrir því hvað það þýðir fyrir þann sem verður öryrki 56 ára. Og þeir gátu í aðdraganda kosninga, þegar Framsfl. var að engjast í 11%, lesið um hinar miklu kjarabætur sem hæstv. ríkisstjórn var búin að semja um við þá.

Nú koma menn og segja: Nei, það var ekki samið um þetta. Það var ekki samið um það sem við sögðum í fréttum Ríkisútvarpsins. Það var ekki samið um það sem stóð í Morgunblaðinu 26. mars. Nei, það var bara samið um 1.000 millj. kr.

Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að þurfa að fara í gegnum þessa umræðu. Mér þykir leitt að þurfa að reka þessar yfirlýsingar ofan í menn. En þegar menn þræta fyrir gert samkomulag, sem hæstv. heilbrrh. staðfesti síðast í ræðustólnum í síðustu viku að gert hefði verið, þá verður víst að gera það. Málið á sér auðvitað langan aðdraganda og túlkun hv. heilbrrn. hefur alltaf verið alveg skýr. Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að fá að lesa úr litlu lettersbréfi sem ég fékk sent í dag úr heilbrrn. Það er rétt að gera grein fyrir því að bréfið er sent hinn 9. apríl eða rúmum mánuði fyrir kosningar. Tveimur vikum eftir að búið var að ganga frá samkomulaginu við Öryrkjabandalagið biður heilbrrn. Tryggingastofnun ríkisins um að reikna út nákvæmlega hvað samkomulagið kostar. Og heilbr.- og trmrn. sendir samkomulagið með útfærslunni, með einu útfærslunni sem um var rætt, 421 kr. lækkun á ári með þeim samningi sem gerður var. Ég ætla að leyfa virðulegum þingheimi, ef tæknin leyfir mér og virðulegur forseti leyfir, að fá að lesa bréfið fyrir hv. þingheim.

,,Í framhaldi af vinnu Tryggingastofnunar ríkisins við útreikninga breytts bótaréttar öryrkja sem ráðuneytið vann, bað um þann 5. febrúar sl. og skilað var til ráðuneytisins 17. mars sl. og í framhaldi af samkomulagi ríkisstjórnarinnar við Öryrkjabandalag Íslands frá 25. mars sl. um sama efni en þó í breyttri mynd er hér með komið á framfæri við Tryggingastofnun þeirri beiðni að reikna út hvað þetta breytta fyrirkomulag örorkubóta mundi kosta á árinu 2003 ef gert væri ráð fyrir að það gilti frá 1. janúar. Sú breytta mynd á grunnlífeyri öryrkja, sem samkomulagið gerir ráð fyrir, er tvöföldun lífeyrisupphæðar þ.e. tvisvar sinnum 20.600 kr. fyrir þá sem greinast með örorku 18 ára en lækkar um 421 kr. fyrir hvert aldursár öryrkjans miðað við það hvenær hann er greindur með örorku. Meðfylgjandi er tafla sem skýrir þetta betur.``

[18:45]

Fjárlagagerðarmenn mundu fagna ef hægt væri að fá þessa útreikninga sem fyrst. Tryggingastofnun ríkisins lá ekki á liði sínu frekar en fyrri daginn. Hún vann þessa útreikninga hinn 10. apríl. Þeir eru mótteknir í heilbrrn. 11. apríl. Eins og þingheimur allur heyrir vafðist það ekkert fyrir embættismanni heilbrrn. um hvað var samið eða hver útfærslan var. Hann tilgreinir nákvæmlega hvaða breytingar samkomulagið við Öryrkjabandalagið hefur í för með sér miðað við þá útreikninga sem Tryggingastofnun hafði gert tíu dögum áður en samkomulagið var undirritað, tilgreinir nákvæmlega forsendurnar og sendir til baka í heilbrrn. upplýsingar um hvað þetta samkomulag kostar. Tryggingastofnun segir heilbrrn. alveg skýrt að það kosti 1.528,8 millj. kr., mánuði fyrir kosningar. Embættismaður heilbrrn. hefur núna fyrirvara við 8% af þessari upphæð eða um 120 millj. kr. En útreikningurinn byggir á því hvað þetta hefði kostað á þessu ári og verðlagsbreytingar og fjölgun öryrkja gera það að verkum að óvarlegt er að gera ráð fyrir minni kostnaði á næsta ári heldur en þessari fjárhæð, 1.528 millj. kr., jafnvel þó að fyrirvarar embættismannsins væru teknir til greina.

Hér var ekki um það að ræða að reiknaðar væru margar útfærslur eða að samkomulagið gæfi kost á ýmsum túlkunum. Hér var einfaldlega beðið um að samkomulagið og kostnaðurinn við það yrði reiknaður út. Ég spurði eðlilega hvort hæstv. heilbrrh. hefði látið það ógert að segja kjósendum og samstarfsflokki sínum frá því, þegar heilbrrn. fékk þessar tölur 11. apríl, að rúmur milljarður þýddi nákvæmlega 1.528,8 millj. kr. Hæstv. heilbrrh. segir í Fréttablaðinu í morgun að hann hafi bara ekki fengið þetta fyrr en í ágúst.

Ég spyr, virðulegi forseti: Hvort er verra? Hæstv. heilbrrh. segist ekki hafa vitað fyrr en í ágúst að kostnaðurinn við það sem hann lýsti sjálfur sem mesta afreki sínu og því sem hann væri stoltastur af hefði farið fram úr um 500 millj. kr. Hvort er verra, að hann hafi vitað það eða að hann hafi ekki frétt það fyrr en í haust?

Mér er, virðulegur forseti, eiginlega alveg sama. Það er hreinlega á ábyrgð ráðherrans að vita það. Það hlýtur að vekja nokkra furðu að varaformaður fjárln. lýsti því yfir í þessari viku að hann hafi fyrst verið að frétta um þessar tölur í síðustu viku og hér hafi orðið uppi fótur og fit.

Nei, virðulegur forseti, það er alveg skýrt um hvað var samið, enda staðfesti hæstv. heilbrrh. það í síðustu viku; tvöföldun grunnlífeyris og lækkun um 421 kr. fyrir hvert ár. Það kostar 1.528,8 milljónir. Það kann að vera að ráðherrann hafi ekki haft heimildir til þess og það kann að vera að honum hafi verið neitað um heimildir til þess á næsta ári en ráðherrann lýsti því yfir í síðustu viku að þá kæmi hann inn með síðari hlutann, síðari 500 milljónirnar, 1. janúar 2005. En nú á ekki einu sinni að standa við það því hæstv. heilbrrh. virðist engan stuðning hafa til þess í ríkisstjórninni að efna þennan samning. Ekki frá sjálfstæðismönnum. Það er alveg ljóst, því bæði hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde og hv. varaformaður fjárln., Einar Oddur Kristjánsson, hafa gert skýra grein fyrir því að heimildin sé bara upp á 1.000 millj. kr.

En mér þykir einkennilegra að félagar hæstv. heilbrigðisráðherrans í Framsfl. skuli ekki ljá honum lið sitt og gera kröfu til þess að kostnaðinum við samninginn verði mætt, 1.528,8 milljónum. Auðvitað hefur oft verið gert kostnaðarmat á vegum framkvæmdarvaldsins en síðan reynst dýrara að uppfylla samningana en kostnaðarmatið gerði ráð fyrir. En í öllum kjarasamningum, í samningum við allar stéttir, a.m.k. hin síðari ár, hefur þeim kostnaði verið mætt. Þeir samningar hafa verið efndir þó að kostnaðurinn hafi farið fram úr því sem áætlað var fyrir og fjárlagaheimildir voru fyrir. Þeim kostnaðarauka hefur þá verið mætt á fjáraukalögum.

Ég trúi því, virðulegur forseti, að hæstv. heilbrrh. hafi aldrei átt von á öðru en að hann fengi fjárheimildir til að efna samninginn. Þetta var nú enginn smásamningur. Ráðherrann lýsti því sjálfur að þetta væri bara samningurinn, það sem hann væri stoltastur af. Framsfl. gervallur lagði ekki lítið upp úr því í kosningabaráttunni að hafa gert þennan samning, enda full ástæða til. Það hafði þurft að reka ríkisstjórnina í tvígang upp í Hæstarétt til að úrskurða öryrkjum þau lágmarkskjör og lágmarksmannréttindi sem þeim bar. Eftir að menn höfðu af harðdrægni þurft að sækja á hæstv. ríkisstjórn þurfti Framsfl. auðvitað að sýna í aðdraganda kosninga að hann vildi bæta kjör öryrkja.

En samningurinn hélt ekki. Kjarasamninginn við öryrkja á að svíkja. Við hljótum að spyrja virðulegan og hæstvirtan heilbrrh.: Hvenær koma 500 millj. kr., síðari áfanginn, sem hæstv. ráðherra lofaði hér í ræðustól í síðustu viku --- í síðustu viku, ekki 25. mars, heldur hér í ræðustól í síðustu viku --- að kæmu 1. janúar 2005? Hvar sjáum við þær 500 millj. kr.? Hvar eru þær 500 millj. kr., hæstv. heilbrrh.?

Við hljótum að spyrja hæstv. heilbrrh.: Upp á hvað hljóðaði kostnaðarmat Tryggingastofnunar ríkisins á breytingum á örorkulífeyrinum sem sent var ráðuneytinu átta dögum fyrir gerð samningsins? Hljóðaði það upp á 1,2 milljarða? Var það sá rúmi milljarður sem vísað var til?

Við hljótum líka að spyrja heilbrrh. hvort hann hafi ekki gert ríkisstjórninni grein fyrir því að samningurinn yrði 500 millj. kr. dýrari fyrr en í andsvari við ræðu minni hér í síðustu viku? Getur það verið að hæstv. heilbrrh. hafi leynt ríkisstjórn Íslands því að samningur sem ríkisstjórnin gerði við Öryrkjabandalag Íslands væri 500 millj. kr. dýrari en fjárheimildir voru fyrir, að því hafi verið leynt fyrir ríkisstjórninni þar til í andsvari hér í síðustu viku, þegar það lá fyrir í útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. apríl? Hvernig víkur þessu við, hæstv. heilbrrh.?

Ég hlýt að bera fleira undir hæstv. heilbrrh. Nú skipaði hæstv. ráðherra starfshóp til að leggja til breytingar á lögum til að uppfylla samkomulagið. Sá starfshópur skilaði tillögum sínum að lagabreytingum í síðustu viku. Embættismaður í heilbr.- og trmn. sagði mér í gær að það væru engar tillögur eða lokaálit til frá þessum starfshópi, að það væri ekkert til. Það var svarið sem ég fékk frá nefndarmanni í starfshópnum og embættismanni í ráðuneytinu. En ég komst að því að það var ekki rétt. Ég talaði aftur við ráðuneytið í dag og ég bað um að fá tillögur starfshóps heilbrrh. um breytingar á lögum til að uppfylla samninginn við Öryrkjabandalagið. Þær tillögur voru lagðar fram í síðustu viku af starfshópi sem ráðherrann sjálfur skipaði. Heilbr.- og trmrn. neitaði mér um að fá frumvarpsdrögin frá starfshópnum.

Virðulegur forseti. Ef þingmanni á Alþingi Íslendinga og nefndarmanni í fjárln. er neitað um að sjá frumvarpsdrög starfshóps heilbrrh. um samning við Öryrkjabandalag Íslands, þá í það minnsta líkar mér það ekki mjög vel. Ég hlýt að spyrja hæstv. heilbrrh. hvort þarna sé eitthvað að fela. Hvort verið geti að tillaga hans eigin starfshóps að lagabreytingum sé talsvert langt frá því frv. sem hann leggur fyrir þingið nokkrum dögum seinna. Gæti verið að starfshópurinn hafi gert tillögu um að 2/3 hlutar samkomulagsins yrðu uppfylltir 1. janúar 2004 og 1/3 hluti uppfylltur 1. janúar 2005 en að hæstv. heilbrrh. hafi hvorki fengið stuðning sinna eigin flokksmanna né stuðning hæstv. ríkisstjórnar við að reyna þó að efna samninginn með þessum hætti, heldur verið gerður afturreka með tillögur eigin starfshóps um efndir á samningi ríkisstjórnarinnar við Öryrkjabandalagið og orðið að koma inn með frv. sem er ekki einu sinni í samræmi við yfirlýsingar hans í þinginu í síðustu viku?

Virðulegur forseti. Þetta mál er allt með miklum ólíkindum. Ég verð að segja að ef almennt er staðið þannig að samningagerð, að sé kostnaðarmat vanmetið um 50% og upplýsingar um það liggi fyrir en týnist svo mánuðum skiptir í blaðabunkum á borðum embættismanna og að kjarasamningar við stóra hópa í samfélaginu séu ekki á vitorði forustu fjárln. Alþingis fyrr en í andsvörum í 2. umr. um fjárlög, þá er full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig þessari skútu er siglt, virðulegur forseti.

Samningurinn við öryrkja er kjarasamningur. Samningurinn við öryrkja er þess vegna ekki almennt kosningaloforð. Hann er samningur um kaup og kjör. Hann hefur verið tilkynntur og hefur verið birtur og hann á að efna í hverju og einu atriði sem um hefur verið samið, en ekki bara að 2/3. Öryrkjar eru alveg jafnmerkilegt fólk og vinnandi fólk. Öryrkjar eiga sama rétt til þess að kjarasamningur við þá sé efndur með sama hætti og við leggjum öll heiður okkar við að efna kjarasamninga við vinnandi fólk. Það er engum blöðum um það að fletta um hvað var samið hér. Þar liggur fyrir túlkun heilbrrn. í bréfi til Tryggingastofnunar. Fyrir liggja skýringar fréttastofu Útvarps og Morgunblaðsins á því í hvað samkomulagið fæli í sér, skýringar sem þeim voru veittar á blaðamannafundi hæstv. heilbrrh. í Þjóðmenningarhúsinu og fóru ekkert á milli mála.

Virðulegur forseti. Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðherra og ég spyr sérstaklega: Hvers vegna fáum við ekki að sjá þau drög að frumvarpi sem hans eigin starfshópur lagði til að lagt yrði fram í þinginu fyrir nokkrum dögum?