Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:56:07 (2696)

2003-12-04 18:56:07# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv., Helgi Hjörvar, sagði í ræðu sinni og hafði eftir mér að þetta væri samningurinn sem ég væri stoltastur af og sagði jafnframt að þetta væri kjarasamningur við öryrkja. Það er alveg rétt. Ég er stoltur af þessum gerningi en hins vegar, ef þetta væri kjarasamningur þá hefði þetta ekki verið kynnt sem samkomulag eða yfirlýsing. Þá hefði hann verið undirritaður. Ég hef sagt að auðvitað hefði verið heppilegra, í ljósi þess sem á eftir kemur, að ganga betur frá þessum endum.

Hins vegar vísa ég því harðlega á bug sem hv. þm. fullyrðir, að áhugi minn á þessu samkomulagi hafi ekki kviknað fyrr en Framsfl. fór að mælast illa í skoðanakönnunum. Það eru aðdróttanir sem ég kann vægast sagt illa við. Formaður Öryrkjabandalagsins og ég höfðum rætt þetta samkomulag í marga mánuði og rætt það af einlægni. Varðandi það hvaða tillögur starfshópurinn sem ég skipaði í byrjun maí skilaði þá skilaði hann til mín drögum og hugmyndum. Starfshópurinn hafði hugmyndir að þessari leið sem hv. þm. lýsti hér. Ég kom auðvitað þessari fjárþörf til skila þegar ég vissi um hana seinni part sumars. Ég bar undir ríkisstjórnina þetta samkomulag í mars og því fylgdi 1 milljarður kr. Það var alveg ljóst.