Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 19:00:44 (2698)

2003-12-04 19:00:44# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[19:00]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi tillögur starfshópsins vil ég taka það fram að hann velti fyrir sér ýmsum hugmyndum. Hann velti m.a. fyrir sér þeim hugmyndum að halda áfram að hækka bætur öryrkja 1. janúar 2005. Hins vegar lagði ég fram frv. á mína ábyrgð og ég lagði það fram í samræmi við það fjármagn sem samkomulagið frá því í mars gerði ráð fyrir. Ég tók þá ákvörðun þegar það var ljóst að verja átti milljarði króna í þetta mál. Þá tók ég þá ákvörðun að það gengi til að tvöfalda bætur þeirra sem verða 75% öryrkjar 18 ára að aldri eða hafa orðið öryrkjar 18 ára að aldri og standa þar með við samkomulagið um að tvöfalda bætur yngstu öryrkjanna.

Varðandi þetta samkomulag er grundvöllurinn í því og það sem þá var mest metið af Öryrkjabandalaginu sú kerfisbreyting sem þetta fól í sér, að aldurstengja örorkubætur. Hún er meginþátturinn í frv., sú mikla kerfisbreyting sem Öryrkjabandalagið hafði barist fyrir árum saman, að aldurstengja bætur. Það var grundvöllurinn í þessu máli. Ég er sannfærður um að kjarabarátta öryrkja heldur áfram. Ég hefði viljað styðja þá og vinna með þeim á eðlilegum nótum en ég verð fyrir miklum vonbrigðum með þann storm og það plan sem er búið að draga umræðurnar niður á. Ég virði það við hv. þingmann að segja að ég sé elskuleg manneskja en það er hægt að egna mann samt svo að þykkni í manni.