Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 19:03:09 (2699)

2003-12-04 19:03:09# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[19:03]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að biðja hæstv. heilbrrh. að eiga það þá við þá sem egna hann og neita honum um heimildir til að uppfylla þann samning sem hann gerði og handsalaði, væntanlega í góðri trú um að hans eigin flokksmenn og samstarfsflokkurinn mundu hjálpa honum við að fjármagna hann. Hvernig sem hæstv. heilbrrh. reynir stendur málið einfaldlega þannig að hann sagði hér í ræðustólnum, síðast í síðustu viku, að samningurinn sem hann gerði mundi kosta 1.500 millj. og hann hefði ekki fjárheimildir nema upp á 1.000 millj. Það þýðir bara að hæstv. heilbrrh. er neitað um fjárheimildirnar.

Þó eru menn hér í fjáraukalögum að veita 17.000 millj. í alls kyns ófyrirséðan kostnað og hluti þar sem kostnaður var vanmetinn. Þá er munurinn á frv. og lokaniðurstöðu 35 milljarðar á einu ári. Þegar ég segi að samningurinn við öryrkja sé ígildi kjarasamnings meina ég það. Örorkubætur eru lífskjör þess fólks sem býr við það að framfleyta sér á örorkulífeyri, og jafnvel meira en þess sem er á vinnumarkaði vegna þess að þetta eru í mörgum tilfellum þau kjör sem þetta fólk þarf að búa við áratugum saman og hefur ekkert annað sér til framfærslu. Þess vegna er jafnvel ríkari ástæða til að efna slíkan kjarasamning en hina almennu.