Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 20:16:07 (2702)

2003-12-04 20:16:07# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[20:16]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins að því máli sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að í lok máls síns varðandi Byrgið. Þar sem hann er að koma inn á þing eftir talsvert hlé og ég hef ekki haft tækifæri til þess að eiga við hann mikinn orðastað um þetta mál finnst mér rétt að upplýsa um þann vanda sem við höfum kallað svo okkar á milli, við sem höfum verið að reyna að koma þessu máli áfram til betri vegar, fortíðarvanda Byrgisins, þ.e. þann vanda sem skapaðist við það að líknarsamtökin Byrgið byggðu upp á Miðnesheiði, tóku húsnæði þar í Rockville, endurbyggðu það allt saman og gerðu að mannabústöðum með tilheyrandi vinnu og fjárútlátum. Síðan var þeim gert að yfirgefa svæðið, færa sig annað og eðlilega gufuðu ekki upp þær skuldir sem þeir höfðu stofnað til á svæðinu. Menn gátu ekki losnað við skuldirnar, þær sátu eftir. Og þetta höfum við orðað þannig að hér væri um fortíðarvanda að ræða þar sem menn kæmust ekki frá eldri skuldbindingum þótt þeim væri skipað að fara. Eins og staðan er núna eru kröfur á Byrgið vegna viðskilanna í Rockville upp á 27 millj. ef líknarfélagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Byrgismenn telja hins vegar hægt að lenda þessum málum með svokölluðum nauðasamningum, þ.e. samningum við skuldunauta og lánardrottna um t.d. 15 millj. sem er sú upphæð sem við hv. þm. Jón Bjarnason höfum lagt til. Við teljum rétt að fara þá leið með þessu lagi og viðurkenna að menn stofnuðu þarna til skuldbindinga sem enginn annar borgar.