Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 20:27:54 (2705)

2003-12-04 20:27:54# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[20:27]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það er komið kvöld, og það er líka komið kvöld í þessa umræðu, 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2004. Það eru samt nokkur atriði sem komið hafa hér fram sem ég held að rétt sé að gera aðeins að umræðuefni.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddi mikið um málefni Byrgisins og annarra meðferðarstofnana. Það þarf að segja nokkur orð um það. Vitnað var í umræðunum réttilega til ummæla minna við 2. umr. fjárlaga um þá stefnu og þær meginmeiningar fjárln. að fara ekki ofan í gerða samninga sem ráðuneytin hefðu staðið fyrir. Nú upplýsti hann, sem ég vissi ekki áður, að ekki hefði orðið samkomulag milli félmrn. og Byrgisins. Eigi að síður er það meining okkar að við förum ekki óskoðað ofan í málefni, samninga eða það sem viðkomandi ráðuneyti vilja gera. Það eina sem ég gæti í málinu sagt og gert, og er guðvelkomið og sjálfsagt, er að fara yfir þennan samning sem Byrgið hefur gert með félmrn. og reyna að skoða hvort hægt sé að leita einhverra sátta.

Rétt er að taka fram að á undanförnum árum hefur fjárln. margsinnis komið að málefnum meðferðarstofnana og staðið fyrir því að hækka ýmsar meðferðarstofnanir verulega. Við gerðum þá breytingu í vinnu okkar í haust að við tókum þá ákvörðun að gera það ekki. Fyrir fjárln. lágu fjölmargar beiðnir um ýmiss konar aðstoð við einmitt meðferðarstofnanir, bæði frá títtnefndu Byrgi, svo og frá SÁÁ og fleiri aðilum sem hefðu áhuga fyrir því. Niðurstaða okkar var sú að við töldum þetta ekki vera nógu markvisst hjá okkur, við hefðum jú verið að reyna að gera eitthvert gagn og hjálpa til en við vorum öll samt sammála um að það væri of ómarkvisst sem menn væru að gera og maður yrði að reyna að hafa einhverja sýn yfir það hvert við ætluðum að stefna í þessum málum. Niðurstaðan varð sú að hvergi er ein einasta tillaga frá meiri hlutanum um þennan málaflokk.

[20:30]

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gerði líka að umræðuefni málefni Bláa hersins. Þannig var, virðulegur forseti, að umhvn. þingsins --- fagnefndirnar fengu mjög mikinn fjölda mála til umsagna --- var um það sammála og lagði nefndarálit fyrir okkur um það að gera engar tillögur til fjárlaganna og bað okkur að gera það ekki vegna þess að þeir töldu rétt að umhvrn. og umhvrh. skiptu þessum fjármunum, enda lægi fyrir að þar væri um samninga að ræða og vilji til þess að gera það væri til staðar. Niðurstaða fjárln. var sú að hrófla ekkert við þessum vilja umhvn., sem ég man ekki betur, virðulegur forseti, en að hafi verið samhljóma, að það hafi verið þverpólitískur vilji í umhvn. að koma ekki nálægt málinu. Hún bað okkur að gera það ekki og við urðum við þeirri beiðni nefndarinnar. Það er nú svarið við þeirri umræðu.

Virðulegur forseti. Hérna liggja fyrir þó nokkrar tillögur frá stjórnarandstöðunni til breytinga á fjárlagafrv. Flest af því eru hefðbundnar hækkunarbeiðnir. Eins og við vitum og skiljum og skulum ekkert gera lítið úr kvarta mjög margir aðilar eins og alltaf er þegar fjárlög eru afgreidd, telja sinn hlut of rýran o.s.frv. Við höfum þekkt það áður. Ég ætla ekki að ræða þessar hækkunartillögur. Ég tel að málið sé útrætt.

Hins vegar er ein tillaga sem þeir eru að flytja þarna sem ég get alveg siðferðislega og í hjarta mínu stutt svo langt sem það nær. Ég ætla að vísu ekki að greiða henni atkvæði á morgun. Ég held að ekki sé rétt að samþykkja hana vegna þess að við á Alþingi höfum ekki stöðu til þess. Þetta er tillagan um að ráðuneyti skeri niður risnu og ferðakostnað sinn um ákveðna upphæð sem mig minnir að sé 600 millj. kr. Ég tek alveg undir það heilshugar að þessi kostnaður hins opinbera, risnu- og ferðakostnaður, er orðinn allt of hár. Við verðum að taka okkur tak í því að átta okkur á að við getum ekki látið svona kostnaðarlið vaxa ár frá ári. En ástæða þess að ég treysti mér ekki til að greiða henni atkvæði er sú að ég held að við náum ekki árangri nema við áttum okkur á að stjórnsýslan og Alþingi er töluvert orðin samdauna þessu. Ef við skoðum hvað þessar tölur hafa hækkað mikið, óhugnanlega mikið, þá verðum við að horfast í augu við að Alþingi er þar hvergi eftirbátur, hvergi. Ef við ætlum að fá stjórnsýsluna í lið með okkur og reyna að taka okkur tak þá verður Alþingi að ganga á undan með góðu fordæmi. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Þeir stjórna ekki öðrum sem stjórna ekki sjálfum sér. Hér held ég að sé mikið verkefni fram undan fyrir alþingismenn í öllum stjórnmálaflokkum, stjórnarandstöðu sem stjórnarliða, að taka höndum saman um það hvernig við getum verið ábyrgir gagnvart því að reyna að snúa þessari uggvænlegu þróun við.

Mjög margir aðrir aðilar í opinberu lífi og opinberri stjórn þyrftu vissulega að fara í gegnum það í sínum huga. Það er alveg nauðsynlegt. Kostnaðurinn er að verða allt of mikill. Ég hef áður rætt það hér að Alþingi verður líka að ræða það hispurslaust og fara yfir það hvert við ætlum að stefna í kostnaði okkar í utanríkisþjónustunni sem er að nálgast 6 þús. millj. Við erum öll á því að við viljum gera þetta með reisn. Við viljum sýna að við erum þjóð með þjóðum og stöndum okkur. En við verðum líka að horfast í augu við að þarna hefur orðið þróun sem Alþingi hefur staðið að, sannarlega staðið að meira og minna í gegnum tíðina. Þetta er hlutur sem við verðum að fara yfir og átta okkur á. (Gripið fram í: Meiri hlutinn.)

Þessi þróun hefur staðið áratugum saman. Alls konar meiri hlutar hafa verið á Alþingi og minni hlutar og aldrei hefur nokkurt svikk verið á tilhneigingu til þess að auka þennan kostnað og margt fleira.

Virðulegi forseti. Ég vil líka nefna það sem ég reyndar kom inn á aðeins áðan, að það er alveg skiljanlegt að menn og stofnanir kvarti yfir því að naumt sé skammtað. Það er viljandi naumt skammtað. Það er viljandi naumt skammtað og það kemur fram að það hefur verið yfirlýst stefna í ríkisfjármálum Íslands að við yrðum á næstu árum að hemja samneysluna í samfélaginu. Hún hefur vaxið mjög hratt á umliðnum árum, yfir 3%. Það er hin yfirlýsta stefna í ríkisfjármálum að reyna að halda þeirri þróun undir 2%. Það er viljandi gert þegar við skömmtum naumt. Það er viljandi gert. Það liggur alveg fyrir. Við skulum horfast í augu við það að stóri spítalinn, Ríkisspítalinn, Landspítalinn -- háskólasjúkrahúsið stendur frammi fyrir því að það ferli sem þeir hafa verið í að auka umsvif sín ár frá ári --- ár frá ári hafa þeir aukið umsvif sín umfram fjárlagaheimildir --- verður að taka enda.

Ég hef starfað núna síðustu tvo mánuðina ásamt hv. þm. Magnúsi Stefánssyni, formanni fjárln., og tveim valinkunnum skrifstofustjórum frá fjmrn. og heilbrrn. að því að reyna að greina það hvað gerðist á þessu ári, hvernig það mátti vera að okkur tókst ekki með nokkru móti að fylgja þeim áætlunum sem fyrir lágu. Við höfum farið í gegnum þetta lið fyrir lið. Það liggur fyrir að lyfjakostnaður var meiri, þó ekki kannski í magni, heldur í notkun lyfja. Margir hafa orðið til þess að gagnrýna þá þróun. Ég vil hins vegar ekki gera mikið úr því. Við höfum mjög framsækna, velmenntaða læknastétt í landinu og eftirsóknin og beiðnin og vonirnar um að við finnum betri krabbameinslyf er aðalhvatinn. Ég held að við eigum að horfast í augu við það að það er mjög dýr þróun. Hún er hlutur sem ég held að við viljum standa að. Ég held að við stöndum saman að því.

Hins vegar liggur það fyrir sem oft hefur verið rætt hér og við eigum að vita, að samningar ríkisins við starfsmenn sína hafa enn og aftur sýnt að þeir eru í reynd hærri en menn gefa út og telja sig vera að gera þegar þeir skrifa undir samningana. Þetta kemur berlega fram í þessum samanburði Landspítalans, sérstaklega gagnvart samningunum við lækna sem tóku gildi í lok síðasta árs eða seinnipart síðasta árs og svo við aðrar hjúkrunarstéttir.

Það liggur líka fyrir að ýmiss kostnaður, kostnaðaraukningin við hjúkrun hefur verið meiri en almennt verðlag. En þó við tökum allt þetta saman þá er fjarri lagi, virðulegi forseti, að þetta skýri mismuninn. Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir nokkrum dögum voru settir verulegir fjármunir inn í þennan spítala, eins og við reyndar gerðum í haust. Þá töldum við okkur skilja spítalann eftir með nokkur hundruð milljónir sem við töldum rétt því eitthvað væri í pípunum í samræmi við eðlileg viðskipti og eðlilega þróun. Við töldum okkur því þannig vera að hreinsa þetta upp. Það er fjarri lagi að það hafi gengið eftir. Fyrir liggur að tilhneigingin og viljinn til þess að auka starfsemina er einbeittur. Hann er einbeittur. Það er útilokað að skýra þennan aukna kostnað Landspítalans öðruvísi.

Ég átti miklar viðræður við hið ágæta og frábæra fólk sem stjórnar hinum ýmsu sviðum Landspítalans. Ég hef oft gert það að umræðuefni að við Íslendingar komumst ekki hjá því frekar en aðrar þjóðir að forgangsraða. Engin þjóð í heiminum nema við trúir því að hún þurfi ekki að forgangsraða. Og þegar ég segi við þessa frábæru lækna að þeir verði að forgangsraða vegna þess að enginn annar getur gert það þá segja þeir réttilega: Við getum forgangsraðað. En hvernig eigum við að treysta íslenskum stjórnmálamönnum til að standa við bakið á okkur þegar við förum að forgangsraða? Sannast þá ekki gamla sagan að allir byrja að gráta og góla og segja: ,,Nei, ekki þetta, ekki þetta.``

Þegar við skömmtum Landspítalanum svo naumt að þeirra dómi eins og fram hefur komið þá mun reyna á þrek manna, hið pólitíska þrek, til að standa við hliðina á þessum frábæra spítala og taka ábyrgðina á þeim fjárveitingum sem hann hefur fengið. Það er mjög nauðsynlegt að segja þetta hér. Það er mjög nauðsynlegt því fráleitt er að ætla stjórnendum spítalans að standa einum og sér þannig að þeir eigi að taka á móti mótmælunum og skömmunum. Auðvitað ber okkur að gera það. Auðvitað berum við ábyrgðina sem erum að semja þessi fjárlög og ganga frá þeim og við verðum að vera menn til þess.

Virðulegi forseti. Ég hef gert það töluvert að umræðuefni, sérstaklega við 2. umr. fjárlaganna, að hinir ýmsu hagfræðingar landsins hafa haft um það mörg orð allt frá því í sumar að ríkisfjármálin væru það sem skipti öllu máli til þess að halda jafnvæginu í efnahagslífinu. Mér hefur fundist þessi umræða dálítið fáránleg af þeirra hálfu vegna þess að ríkisfjármálin hafa verið í mjög miklu jafnvægi eins og allir vita um margra ára bil. Við stöndum allt öðruvísi að þessum hlutum en flestar þjóðir Evrópu. Við erum núna, virðulegi forseti, að afgreiða fjárlögin með nokkurn veginn sömu tölu og við ætluðum 1. október. Afgangurinn er að vísu 380 millj. kr. hærri. Það skiptir engu máli. Við verðum hins vegar að átta okkur á því að það geta réttilega verið ýmsar hættur fram undan á Íslandi og í íslensku efnahagslífi. Við skulum ekki gera lítið úr því. Við skulum átta okkur á því.

Ég verð að segja það við hv. síðasta ræðumann að mér finnst dálítið ankannalegt þegar þingmenn koma hér upp og vitna og vitna í Má nokkurn Guðmundsson sem vinnur hjá Seðlabankanum, og hafa eftir honum nýleg skrif um að síðustu mistök í efnahagslífi Íslendinga hafi verið vegna stefnunnar í ríkisfjármálum. Það er nú svo skrýtið að það er eins og sumir haldi að þessir menn sem vinna þarna í Seðlabankanum séu eitthvað ósnertanlegir og alveg sama hversu fáránlega hluti þeir láta út úr sér. Skrifa um að ríkisfjármálin hafi orsakað það að þeir misstu niður gengið árið 2000, eftir að hafa keyrt upp vaxtastefnu sem margsinnis var búið að benda á að væri löngu búin að snúast upp í andhverfu sína. Og sömu menn halda áfram á sömu brautinni. Rétt er að vekja athygli á því að greiningardeildir viðskiptabankanna eru núna þessa dagana að hefja áskorun á þennan hávaxtabanka, Seðlabankann, en hækka nú vexti enn þá meira. Auðvitað vilja þessar greiningardeildir halda stöðu sinni og hugsa um sína banka. Þetta er gósentíð. Það hafa ekki aðrir bankar fyrr né síðar komist í annað eins og íslenskir viðskiptabankar á síðustu missirum. Það er von að þeir vilji engu breyta.

[20:45]

Ástæða er til að vara við slíku tali. Það er ekki einu sinni rangt, nei, það er hættulegt.

Við sáum alveg hvað gerðist 1998 og 1999. Hvað sagði svo Seðlabankinn árið 2000 þegar ekkert stóð eftir af því sem hann hafði sagt? Þeir bara þögðu. Það hefur ekkert heyrst frá þeim fyrr en í sumar. Nú eru þeir byrjaðir aftur á sömu vitleysunni. Svo vitnum við hér á Alþingi í þennan vitring, Má Guðmundsson. Hún er með endemum, ógæfan í þessu öllu saman.

Við skulum átta okkur á því, virðulegi forseti, að við vitum ekki nákvæmlega hvaðan getur blásið á næstu árum. Það getur blásið úr ýmsum áttum. Við erum stödd á mjög viðkvæmum tímum, við vitum ekkert hvað bíður okkar. Við höfum trú á að við séum að fara inn í mikið góðæri. Menn hafa verið að hrópa það og hafa það hver eftir öðrum að nú væri gríðarlegt hagvaxtarskeið að hefjast, (Gripið fram í: Ekki sagði ég það.) og enginn gagnrýnt það neitt. (Gripið fram í: Jú, jú.) Menn hafa étið það hver upp eftir öðrum. Við getum ekki gengið út frá því sem vísu, það er alveg fjarstæða. Við erum með lækkandi verð á flestum fiskafurðum okkar, við erum með harðnandi samkeppni, gríðarlega harðnandi samkeppni mjög víða. Það er ástæða til að taka það alvarlega þó að enn þá hafi ríkisstjórn Íslands getað að mestu leyti komið í veg fyrir m.a. mikinn samdrátt á Keflavíkurflugvelli þar sem sannarlega hefur verið hluti af tekjum Íslendinga. Við skulum fara mjög varlega og við skulum átta okkur á því að það er engin ástæða til þess að ganga fram af einhverju kæruleysi og halda að nú sé að koma svo rosalega mikið góðæri.

Ríkisstjórnin hefur fullkomlega staðið við sinn hlut með þessu fjárlagafrv. Hún skilar fjárlagafrv. með ágætum afgangi, er meira að segja sagt það. Það er verið að taka undir þann söng að draga ætti endilega úr ríkisframkvæmdum á þessum árum. Það er óþarfi að mínum dómi þó að ég fallist á þá stefnu ríkisstjórnarinnar, eins og aðrir stjórnarliðar. Það er alveg óþarfi. Það eru mjög litlar framkvæmdir á vegum ríkisins, þær eru ekki nema 1,9% af landsframleiðslunni, mjög litlar. Þær hafa engin áhrif. Og þeir hagfræðingar sem tala mest um þetta hafa hvorki mælitæki né nokkra getu til þess að segja að þetta hafi áhrif, ekki frekar en að ein fjöður sem dettur niður á jörðina orsakar jarðskjálfta.

Hins vegar er ýmislegt sem við þurfum að gæta mjög vel. Bankarnir skila gríðarlegum arði, og hagnaðurinn eftir skatta gefur þeim --- KAT-hlutfall þeirra er að hækka stórkostlega þannig að umsvif þeirra gætu þess vegna hæglega aukist á næsta ári um ekki minna en 100 milljarða. Svo sitja þessir menn og einblína á það hvort afgangurinn í ríkissjóði sé 4, 6 eða 8 milljarðar. Þetta er fáránleg umræða.

Ríkissjóður Íslands hefur verið rekinn á mjög ábyrgan hátt um margra ára bil. Menn geta komið, stjórnarandstaðan, ég get líka sagt og tekið undir það að ef við lítum til baka til síðustu tíu ára hefðum við sannarlega getað sparað meira, við hefðum ekki þurft að eyða eins miklu og við gerðum, sannarlega ekki. Ríkissjóður Íslands stendur samt vel, sérlega vel í hlutfalli við önnur ríki Evrópu.

Ég ætla samt ekki að gera þetta að löngu máli núna, alls ekki. Við skulum minnast þess sem við höfum áður sagt, afgreiðsla þessara ríkisfjármála núna er ekki örlagavaldurinn um það hvernig okkur tekst til á næsta ári, heldur eru það aðrir hlutir. Það eru kjarasamningarnir á næsta ári sem ráða um það hvernig okkur mun til takast. Aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi hafa margsinnis í gegnum tíðina sýnt mikla ábyrgð við gerð kjarasamninga. Það ríður á því að ríki hafi forgöngu um það núna, alla forgöngu um það, að gæta þess að atvinnulífið fái ráðrúm, að það sé svigrúm fyrir atvinnulífið sem stendur mjög höllum fæti vegna gengisstefnunnar og þess hversu undarlega sterk íslenska krónan er um þessar mundir. Það hefur minnkað möguleika íslenskrar framleiðslu til að svara þeim kröfum sem sannarlega koma upp hjá Alþýðusambandi Íslands, Flóabandalaginu og Starfsgreinasambandinu, þeim aðilum sem í gegnum tíðina hafa margsinnis sýnt og sannað að eru hin ábyrgu öfl, ábyrgustu öflin í þjóðfélaginu.

Því er gríðarlega nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir þessu og að menn geti treyst því að ríkið sýni þá staðfestu að hið góða, ábyrga, velviljaða og hæfa starfsfólk hins opinbera taki ekki öðrum launabreytingum en þeim sem atvinnulífið á Íslandi, íslensk framleiðsla, íslenskur samkeppnisiðnaður getur staðið við. Þetta ræður úrslitum, þetta mun segja til um það hvernig okkur farnast. Það skiptir öllu máli.

Þetta segi ég, virðulegi forseti, um leið og ég þakka samstarfsmönnum mínum í fjárln. fyrir ánægjulega haustvinnu, þakka stjórnarandstöðunni sérlega ánægjulegt samstarf eins og alltaf við þessa hluti sem eru skemmtilegir þó að þeir séu flóknir, fagna því að við enn þá einu sinni séum það gæfufólk að skila af okkur heilbrigðu og góðu fjárlagafrv.